141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

valkostir Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum.

[11:29]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Fyrir sjö árum síðan skrifaði ég, þá prófessor við Háskóla Íslands, og Gylfi Zoëga prófessor skýrslu sem bar nafnið Fyrirkomulag gengismála á Íslandi: Horft til framtíðar. Það er óhætt að segja að framtíðin sé komin núna. Í skýrslunni segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Þegar kostir og gallar þess að taka upp nýja peningamálastefnu eru ígrundaðir þarf að svara tveimur lykilspurningum: Í fyrsta lagi, getur peningamálastefnan linað afleiðingar þjóðhagslegra hnykkja og hvert er hlutverk gengisins í aðlögun hagkerfisins að jafnvægi? Í öðru lagi, er peningamálastefnan sjálf rót þjóðhagslegra hnykkja? Sú gæti verið raunin ef seðlabanki nyti ekki trúverðugleika eða ef hann tæki óeðlilegt tillit til stjórnmálaaðstæðna. Ef sjálfstæð peningamálastefna nær að jafna hagsveiflur er sjálfstæður gjaldmiðill eftirsóknarverður, ef hún er hins vegar rót efnahagslegs vanda þá gæti verið skynsamlegt að festa gengið til frambúðar og ganga í myntbandalag.“

Áfram segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Af þeim kostum sem í boði eru virðast því einungis tveir koma til greina: að taka þátt í evrópska myntsamstarfinu — sem hefði í för með sér inngöngu í Evrópubandalagið — og taka þar með upp evru eða halda núverandi gengisfyrirkomulagi.“

Að þeirri niðurstöðu var hægt að komast á 200 blaðsíðum, það þurfti ekki 600 blaðsíður til þess. En grundvallarforsendan sem þeir sem aðhyllast aðild að Evrópusambandinu virðast gefa sér er að ef við höldum krónunni verði það gert í óbreyttri mynd, að engu verði breytt. Það verði sem sagt flotið sofandi að feigðarósi. Ef halda á úti sjálfstæðum gjaldmiðli þarf auðvitað að endurbæta hagstjórnina og um það mun ég fjalla síðar í dag.

Hitt er aftur á móti annað mál að það virðist vera orðið morgunljóst að íslenska þjóðin (Forseti hringir.) vill ekki ganga í Evrópusambandið. Þar af leiðandi þurfum við að beina sjónum að þeim kosti sem stendur til boða og það er að vera með sjálfstæðan gjaldmiðil, sama hvað hver segir.