141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[17:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Í frumvarpinu er lagt til að Alþingi veiti almenna lagaheimild til að selja eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum þeim sem komust í eigu ríkisins í kjölfar falls íslenska fjármálakerfisins haustið 2008. Eignarhald ríkisins á þessum fjármálafyrirtækjum stafar ekki af markvissri stefnu um að auka umsvif ríkisins á fjármálamarkaði heldur er um að ræða afleiðingar og viðbrögð við hruni fjármálakerfisins. Með vísan til þessa eru ekki taldar forsendur til þess að ríkið verði langtímaeigandi eignarhluta í fjármálafyrirtækjum heldur losi um þá með sölu.

Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að ráðherra verði heimilt að selja að öllu leyti eða að hluta eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum, að fengnum tillögum frá Bankasýslu ríkisins. Um er að ræða 5% eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka hf., 13% eignarhluta ríkisins í Arion banka hf. og eignarhluta ríkisins í Landsbankanum hf. umfram 70% hlut þess sem áfram yrði í eigu ríkisins. Þá er einnig lögð til heimild til sölu á eignarhlutum ríkisins í sparisjóðum en þess ber að geta að finna má nú þegar í 6. gr. fjárlaga ársins 2012 og í 6. gr. frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2013 sérstaka lagaheimild til að selja eignarhluti ríkisins í sparisjóðum. Með þessu frumvarpi er hins vegar lagt til að sambærilegar heimildir verði teknar upp er snúa að sölu þeirra eins og annarra fjármálafyrirtækja. Í 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins er kveðið á um að Bankasýsla ríkisins muni koma fram með tillögur til ráðherra um hvenær rétt sé að selja eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum og með hvaða hætti í samræmi við það sem lög um Bankasýslu ríkisins mæla fyrir um. Í 2. mgr. 1. gr. er gert ráð fyrir því að ráðherra verði heimilað að selja eignarhluti ríkisins í Arion banka hf., Íslandsbanka hf. eða sparisjóðum í því skyni að uppfylla skyldur ríkisins sem leiða af nýtingu kaupréttar á eignarhlutum ríkisins, innlausnarréttar á eignarhlutum ríkisins eða réttar meirihlutaeiganda til að krefjast þess að ríkið sem minnihlutaeigandi selji eignarhlut sinn á sama tíma og meirihlutaeigandi samkvæmt samningum sem gerðir hafa verið og ríkið er aðili að eða samkvæmt lögum. Í slíkum tilvikum mundu ákvæði 2.–5. gr. þessa frumvarps ekki gilda um sölu viðkomandi eignarhluta.

Í 2. gr. er lagt til að ráðherra útbúi greinargerð um ráðgerða sölumeðferð og leggi fyrir fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis ef ráðherra hefur fallist á tillögu Bankasýslunnar um að selja eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtæki. Í 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins er rakið hvað skuli að lágmarki koma fram í greinargerðinni. Mikilvægt er að hægt sé að rökstyðja val á söluaðferð með hliðsjón af meginreglum sem gilda eiga um sölu og að forsendur valsins séu öllum ljósar. Þar sem Alþingi er ekki að störfum á ákveðnum tímum ársins er talið þýðingarmikið að engu að síður sé unnt að bera áform um sölu eignarhluta undir löggjafann. Mikilvægt er að umræddar nefndir Alþingis sem helst hafa með málaflokk þennan að gera fái tækifæri til að ræða tilgang og markmið ríkisins með sölu á þessum eignarhlutum. Því er lagt til í greininni að fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis sé gert kleift að fylgjast með sölu eignarhluta í umræddum félögum og koma að athugasemdum við efni hennar.

Í 2. mgr. 2. gr. er lagt til að ráðherra taki, að loknum fresti þeim sem nefndirnar tvær hafa til að setja fram athugasemdir, endanlega ákvörðun um hvort sölumeðferð á eignarhluta verði hafin í samræmi við efni greinargerðar. Kjósi ráðherra að hefja sölumeðferð er honum unnt að gera breytingar á útfærslu einstakra þátta fyrirhugaðrar sölumeðferðar, hvort tveggja að eigin mati eða að teknu tilliti til athugasemda fjárlaganefndar eða efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis við greinargerðina.

Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að lögfestar verði tilteknar meginreglur sem hafa beri að leiðarljósi við ákvörðunartöku um undirbúning og framkvæmd sölumeðferðar eignarhluta. Þegar ákvörðun er tekin um undirbúning og framkvæmd sölumeðferðar eignarhluta skal áhersla lögð á opið söluferli, gagnsæi, hlutlægni og hagkvæmni. Með hagkvæmni er átt við að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignarhluti. Þess skal gætt að skilyrði þau sem tilboðsgjöfum eru sett séu sanngjörn og að þeir njóti jafnræðis. Við sölu á eignarhlutum skal ávallt hafa það að markmiði að efla virka og eðlilega samkeppni. Gert er ráð fyrir að meginreglur þessar nái til alls þess ferlis sem lýst er í frumvarpinu. Ef ákveðið er að láta önnur sjónarmið gilda en hagkvæmni þarf sú ákvörðun að byggjast á málefnalegum rökum og styðja við önnur markmið með sölunni. Gert er ráð fyrir að bjóða skuli eignarhlut til sölu í opnu söluferli, en nauðsynlegt er að rökstyðja sérstaklega ef ekki stendur til að bjóða hlut til sölu með þeim hætti. Slíkt fyrirkomulag kann í undantekningartilvikum að koma til greina, t.d. við sölu á minni eignarhlutum ríkisins eða ef einhverjar sérstakar aðstæður kalla á að þetta fyrirkomulag sé viðhaft. Auk þeirra meginreglna sem nefndar eru í 3. gr. frumvarpsins verður að telja æskilegt að við framkvæmd sölu sé lögð áhersla á að söluferli sé skýrt og opið.

Í 4. gr. er kveðið á um að Bankasýsla ríkisins annist sölumeðferð eignarhluta fyrir hönd ríkisins í samræmi við ákvörðun ráðherra. Jafnframt er kveðið á um að ráðherra taki ákvörðun um hvort tilboði skuli tekið eftir að hafa fengið rökstutt mat frá Bankasýslunni á þeim tilboðum sem berast í tiltekna eignarhluti. Í frumvarpinu er lagt til að hlutverk Bankasýslu ríkisins við sölumeðferð verði meðal annars að undirbúa sölu, leita tilboða í eignarhlut, meta tilboð, annast samningaviðræður við utanaðkomandi ráðgjafa og væntanlega kaupendur og annast samningagerð. Við mat á tilboðum í meira en 10% eignarhlut í fjármálafyrirtæki ber að líta til skilyrða um mat á hæfi tilboðsgjafa til þess að fara með eignarhlut í fjármálafyrirtæki, samanber VI. kafla laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

Í 2. mgr. 4. gr. er lagt til að Bankasýsla ríkisins skili ráðherra rökstuddu mati á tilboðum í eignarhlutann þegar þau liggja fyrir. Í kjölfarið mun ráðherra taka ákvörðun um samþykki eða höfnun tilboða fyrir hönd ríkisins. Í 2. mgr. er jafnframt kveðið á um að ráðherra skuli undirrita samninga fyrir hönd ríkisins um sölu eignarhluta. Gert er ráð fyrir að ráðherra geti falið Bankasýslu ríkisins að annast endanlegan frágang vegna sölu eignarhluta.

Í 5. gr. er lagt til að ráðherra skili Alþingi skýrslu um sölumeðferð eignarhlutans og niðurstöðum hennar. Í henni skal koma fram vönduð lýsing á söluferlinu frá upphafi til enda ásamt skýringum á því hvað réði ákvörðun um samþykki eða höfnun tilboða.

Í 6. gr. er lagt til að lög þessi öðlist þegar gildi.

Í ákvæði til bráðabirgða er kveðið á um að ekki sé hægt að útiloka að þörf verði á því að hefja sölumeðferð á einstaka eignarhlutum ríkisins í sparisjóðum áður en frumvarp þetta kemur til endanlegrar afgreiðslu á Alþingi. Hér er því lagt til að ákvæði frumvarpsins gildi ekki um sölumeðferð á eignarhlutum í sparisjóðum sem við gildistöku laganna er þegar hafin.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. fjárlaganefndar og 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.