141. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2012.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Fyrst vegna orða hv. formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar áðan um að menn hefðu verið handvaldir og útvaldir í að semja hér stjórnarskrá er það einmitt þannig að örfáir handvaldir og útvaldir sömdu þær spurningar sem á að leggja fyrir 20. október. Það voru nokkrir handvaldir og útvaldir sem ákváðu um hvað ætti að spyrja, það komu ekki allir að því.

Frú forseti. Skattahækkanir ríkisstjórnarinnar undanfarið kjörtímabil hafa að sjálfsögðu verið mjög skaðlegar eins og flestir viðurkenna nema kannski fulltrúar stjórnarflokkanna. Nú á að hækka skatta á ferðaþjónustu og rjúfa samkomulag sem gert var við stóriðjuna um raforkuskatt, a.m.k. samkvæmt fjárlögum, og áhrifin af því að ætla að hækka skatta á ferðaþjónustuna eru strax farin að gera vart við sig.

Ég er með í höndum tölvupóst frá fyrirtæki sem var að aðstoða einstaklinga við hótelbyggingu norður í landi og þar segir, með leyfi forseta:

„Sæll og takk fyrir þetta. Þetta er góð kynning hjá ykkur að mörgu leyti en meðan óvissa ríkir um þau rekstrarskilyrði sem hótelinu eru sett með nýjasta útspili fjármálaráðherra eru öll svona verkefni í biðstöðu. Þeir fjárfestar sem þarna var um að ræða og þeir sjóðir sem að þessu koma halda að sér höndum vegna þess að ríkisstjórnin hefur ákveðið eða stjórnarflokkarnir að setja þessa atvinnugrein og vaxtarmöguleika hennar í fullkomið uppnám þannig að þeir sem ætluðu sér að framkvæma, byggja ný gistiheimili eða stækka við eða breyta“ — ég sé að einhverjum þingmönnum þykir sárt að sitja undir þessu en þetta er samt svona — „þá er það þannig að þeir hafa ekki þá kosti og möguleika sem þeir höfðu fyrir nokkrum mánuðum til þess að byggja sig upp.“

Annað sem skiptir máli, frú forseti, er að ef þetta verður ekki tekið út eða gefin yfirlýsing á næstu vikum verða þessir aðilar (Forseti hringir.) í vanda með að bóka og ná utan um rekstur sinn fyrir næsta ár.