141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður svaraði ekki spurningu minni hvort þarna væri ekki gefinn höggstaður á þessari sátt og virkjunarsinnar gætu notað þetta fráhvarf til að virkja. En það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni. Það þarf ekki að virkja neitt. Við notum ekki við heimilisbrúk nema lítinn hluta. Við getum lokað öllum virkjununum, fyrir 100 árum voru engar virkjanir á Íslandi en lífskjörin voru líka samkvæmt því. Þetta er eins og blaut tuska framan í það fólk sem er að flýja land í leit að betri lífskjörum. Að heyra að það þurfi ekki að auka velferð á Íslandi, auka atvinnu eða gera nokkurn skapaðan hlut. En það er hárrétt, við þurfum ekki að gera neitt, við getum bara látið fólkið fara og haldið áfram að hafa atvinnuleysi og haldið áfram að vera með halla á ríkissjóði. (TÞH: Það er stefna ríkisstjórnarinnar.) Það er stefna ríkisstjórnarinnar, hárrétt. Það getur vel verið að það sé ágætt að hafa það þannig. Ég er ekki sammála því. Ég tel að orka Íslands sé auðlind Íslands og það beri að nota hana til að við getum haldið uppi sterku og öflugu velferðarkerfi og til að allir hafi atvinnu, þeir sem vilja vinna.