141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[19:37]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég tel mig bera virðingu fyrir ólíkum sjónarmiðum í þessum efnum. En um leið verðum við að halda ákveðnum staðreyndum til haga. Í fyrsta lagi getur hv. þm. Pétur Blöndal sannarlega enn fallist á niðurstöðuna sem heldur þessum sex virkjunarkostum, sem hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru ósáttir við að fari í biðflokk, og haldið sig við hana. Það sem ég hins vegar skil ekki í þessu, og ég einlæglega skil það ekki, er hvers vegna það að setja þessa kosti í bið gerir það að verkum að allt sé unnið fyrir gíg. Það hreinlega getur ekki verið. Það verður að skýra það betur út með ítarlegri og málefnalegri hætti.

Þá kemur að hinum punktinum sem kom fram í máli hv. þingmanns. Það er að sjálfsögðu allt önnur aðgerð að fara með einhvern virkjunarkost eða svæði úr biðflokki í nýtingu eða vernd en að taka hann úr nýtingu eða vernd og setja í biðflokk. Það hlýtur að liggja í hlutarins eðli að þar sé ákveðið hlutlaust svæði, skulum við segja, ekki er búið að taka endanlega ákvörðun. Það getur því ekki verið að ég hafi skilið þingmanninn rétt þegar hann segir að eftir það geti hver sem er sett hvað sem honum hentar í nýtingu, það er ekki þannig.

Það er allt annars konar aðgerð að setja fleiri svæði í bið. Það er aðgerð sem segir: Við þurfum meiri rannsóknir, við þurfum meiri þekkingu, við þurfum að skilja betur um hvað ræðir og síðar taka ákvörðun um í hvorn flokkinn þetta fari, vernd eða nýtingu. Ég vil gjarnan heyra frekari (Forseti hringir.) sjónarmið hv. þingmanns hvað þetta varðar.