141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

jafnréttismál.

[10:50]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Það væri meiri sómi að því ef hæstv. forsætisráðherra kæmi einfaldlega hingað og segði: Ég braut lög, mér varð á, mér finnst það miður og ég bið Önnu Kristínu Ólafsdóttur afsökunar á framferði mínu varðandi umsóknarferli hennar o.s.frv. En það er ekki gert og það hefur verið undirstrikað af héraðsdómi að sama hvað hæstv. forsætisráðherra tautar og raular gerðist forsætisráðherra brotlegur við jafnréttislög. Það er liðið.

Aftur upplifum við það að ráðherra í ríkisstjórn sem forsætisráðherra veitir forstöðu hefur gerst brotlegur við jafnréttislögin. Þá verðum við í þágu jafnréttisbaráttunnar að hugsa um hvernig við ætlum að bregðast við. Gott og vel, við sjálfstæðismenn munum að sjálfsögðu taka þátt í vinnu við að fara yfir jafnréttismálin en ég bið einfaldlega um að farið verði eftir jafnréttislögum meðan þau eru í gildi. Það þýðir ekki að rjúka til og kenna lögunum um erfitt lagaumhverfi þegar ráðherrar gerast sífellt sekir um brot á jafnréttislögum. Það eru vond skilaboð fyrir jafnréttisbaráttuna sem slíka (Forseti hringir.) og ég ítreka spurningu mína: Er hæstv. ráðherra sammála því sem meðal annars Femínistafélagið sagði, að það væri ólíðandi að ráðherra bryti jafnréttislög? Tekur ráðherra undir með jafnréttisstýru (Forseti hringir.) sem segir einfaldlega að innanríkisráðherra hafi gefið nefndinni langt nef?

(Forseti (ÞBack): Ég bið hv. þingmenn um að virða tímamörk.)