141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

3. mál
[11:59]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að það sé mjög í anda þeirrar lagabreytingar sem gerð var á sínum tíma að verkefnisstjórninni væri falið að flokka kostina. Gengið var út frá því að hún væri bær til þess að komast að niðurstöðu á faglegum forsendum. Ef ég skildi hv. þingmann rétt gerði hann því skóna hér að það væru fulltrúar í verkefnisstjórninni sem ekki ynnu þar á faglegum forsendum. Hann þarf þá bara að gera betur grein fyrir því hvað hann hefur fyrir sér í þeim efnum.

Ég tók hins vegar eftir því að hv. þingmaður kom ekkert inn á það sem ég gat um í máli mínu sem var það að ég tel að stjórnarflokkarnir hafi haft mjög gott tækifæri þegar þeir voru komnir með skýrsluna í hendur til að kalla til stjórnarandstöðuflokkana, láta reyna á breiða samstöðu um með hvaða hætti málið kæmi hingað inn í þingið. (Gripið fram í.) En í stað þess að gera það tóku stjórnarflokkarnir þá ákvörðun að loka sig inni, loka sig af, ráðherra umhverfismála og iðnaðarráðherra. Þau gerðu með sér einhvers konar samkomulag sem fylgt var eftir með þeim orðum að það væri afar brýnt að þingið hreyfði ekkert við því samkomulagi sem ráðherrarnir hefðu komist að, ella væri allt komið upp í loft.

Það sýnir nákvæmlega það sem ég hef vakið athygli á, að málið hefur verið fellt í pólitískan farveg og allt er gert til að knýja fram pólitískan vilja stjórnarflokkanna í málinu. Það hefur verið hreinn ásetningur stjórnarflokkanna að hlusta ekkert eftir sjónarmiðum stjórnarandstöðunnar í málinu. Það er greinilegur ásetningur stjórnarflokkanna.

Varðandi hitt atriðið (Forseti hringir.) vil ég biðja hv. þingmann um að gera betur grein fyrir því, í mínum huga snýst málið auðvitað um að menn séu sammála um (Forseti hringir.) hvernig þingmálið ber að.