141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

3. mál
[12:01]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Fyrri spurningin sem hv. þingmaður fékk var ósköp einfaldlega um það hvernig stæði á því að hann ætlar verkefnisstjórn, þar sem situr einn alþingismaður af 63, að vera hinn faglegi grunnur málsins. Það sést mjög vel á einmitt setu alþingismannsins í verkefnisstjórninni, en sá hv. alþingismaður var skipaður af fyrri forsætisráðherra, að nefndinni var ekki ætlað það hlutverk sem hv. þm. Bjarni Benediktsson ætlar henni, heldur var henni ætlað að vera fagleg yfirstjórn. Þar hefur hinn tiltekni hv. alþingismaður, Unnur Brá Konráðsdóttir, staðið sig alveg ágætlega, en henni var ekki ætlað þetta hlutverk.

Þess vegna spyr ég og er eðlilegt að spyrja að um það: Á hv. alþingismaður Unnur Brá Konráðsdóttir að víkja (Gripið fram í.) úr verkefnisstjórninni við gildistöku þeirra laga sem hér er verið að flytja frumvarp um?

Í öðru lagi er það sem mér finnst að hv. þm. Bjarni Benediktsson hljóti að eiga að svara: Hvaða fordæmi eru fyrir því að ráðherra eða annar þingmaður leggi fram þingmál á þinginu sem hann ber ekki ábyrgð á? Að honum sé skipað með lögum að leggja fram mál sem hann hefur ekki komið nálægt sjálfur, sem hann getur ekki borið ábyrgð á? Hver ber ábyrgð á því máli? Þeirri spurningu er ekki aðeins beint til alþingismanns sem heitir Bjarni Benediktsson og er háttvirtur, heldur líka til lögfræðings sem hefur nú oft gumað hér af lögfræðiþekkingu sinni sem sé meiri en annarra þingmanna.

Tillagan sem ég ætla að koma með í lokin, með sama lagi og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson gerði í gær í andsvari, er að leggja til í samræmi við atkvæðagreiðslu sem fram fór áðan að málið gangi til hinnar háu umhverfis- og samgöngunefndar.