141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

kosningar til Alþingis og kosningar til sveitarstjórna.

180. mál
[14:31]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis og lögum um kosningar til sveitarstjórna. Með frumvarpinu er lagt til að með skýrum hætti verði lögfestur réttur þeirra kjósenda sem lagaákvæði ná til, um að þeir eigi sjálfir rétt á að ákveða hver aðstoði þá við atkvæðagreiðslu í kosningum.

Þannig eiga kjósendur sem lagaákvæðin ná til ekki að þurfa að vera bundnir við aðstoð kjörstjóra eða fulltrúa úr kjörstjórn til þess að geta greitt atkvæði í kjörklefa. Það er engu að síður hin almenna regla sem gengið er út frá að geti fólk ekki greitt atkvæði fái það aðstoð kjörstjórnar til slíks.

Sætti einstaklingarnir sig ekki við það fyrirkomulag á þeirra vilji að ráða. Þeir skulu þá greina kjörstjórn frá því í einrúmi hver eigi að aðstoða þá við atkvæðagreiðsluna. Geti þeir ekki tjáð sig, eða eiga óhægt um vik með það, geta þeir framvísað uppáskrifuðu vottorði frá lögskipuðum réttindagæslumanni sem kveður á um vilja einstaklingsins í þessu efni.

Ég tel að þetta sé mikil réttindabót. Mér finnst þetta vera sjálfsagt frumvarp. Ég hét því í aðdraganda forsetakosninganna í sumar að þetta yrði fyrsta málið sem ég talaði fyrir á Alþingi og það stendur. Ég vonast til þess að málið fái fljóta afgreiðslu í þinginu, fljóta umfjöllun nefnda þingsins, og síðan verði atkvæðagreiðsla hið fyrsta svo að þessi lagabreyting nýtist við þjóðaratkvæðagreiðsluna sem fram fer 20. október.

Ég vil leggja áherslu á að haft var gott samráð við Öryrkjabandalag Íslands og Blindrafélagið sem höfðu gagnrýnt það fyrirkomulag sem verið hefur við lýði og ég hef séð yfirlýsingar formanns Öryrkjabandalagsins í fjölmiðlum, og áður í mín eigin eyru, þar sem hann leggur áherslu á að um mjög mikilvæga réttarbót sé að ræða.

Ég geri það að tillögu minni að málið fari til hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og 2. umr. að lokinni þessari umræðu.