141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

staða aðildarviðræðnanna við ESB.

[15:37]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að færa hæstv. utanríkisráðherra kveðju frá Ólafi Narfasyni, 87 ára gömlum verðlaunakúabónda frá Gimli í Manitoba-fylki. Skilaboð hans til utanríkismálanefndar á ferð okkar um þær sveitir í síðustu viku voru mjög skýr en hann sagði: Ísland hefur ekkert að gera í ESB, inn í þetta Euro eins og hann kallaði það. Og svo leiddi hann okkur í utanríkismálanefnd í fjöldasöng og söng Öxar við ána af miklum krafti. Þeim skilaboðum er því hér með komið til skila.

Það eru meira en tvö ár síðan viðræður við Evrópusambandið hófust formlega í lok júní 2010. Á þeim tíma hafa 18 kaflar verið opnaðir af 35 og 10 verið lokað tímabundið. Aðeins einn kafli af þeim sem lokað hefur verið heyrir ekki undir EES-samninginn eða aðrar alþjóðlegar skuldbindingar Íslands og enn hafa viðræður um erfiðustu kaflana ekki verið hafnar og samningsafstaða okkar liggur ekki einu sinni fyrir í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum. Fullyrt er hins vegar að viðræðurnar séu á áætlun en staðreyndin er sú að sífellt er verið að breyta áætluninni. Dæmi um það er að í lok síðasta árs sagði utanríkisráðherra að stefnt væri að því að opna alla samningskaflana í formennskutíð Dana sem lauk í júní sl. Einnig væri stefnt að því að ljúka viðræðunum á þessu ári. Þegar það gekk ekki eftir tókum við upp áætlun um að opna alla kaflana fyrir lok þessa árs. Sú nýjasta er á þá leið að opna eigi 28 kafla af 35 fyrir áramót en rest á næsta ári og þar á meðal erfiðustu kaflana.

Hvernig verður næsta áætlun ef hæstv. utanríkisráðherra fær að halda leiknum áfram? Það er mjög auðvelt að segja að eitthvað sé á áætlun ef áætluninni er sífellt breytt. Staðreyndin er sú að þessar viðræður eru ekki á áætlun. Þær hafa aldrei verið á áætlun og fái Evrópusambandið og stuðningsmenn þess að ráða mun þeim ekki ljúka fyrr en taldar verða einhverjar líkur á að innganga í sambandið verði samþykkt hér á landi.

ESB hefur ekki sent frá sér rýniskýrslu um sjávarútvegsmálin. Kaflinn hefur sem sagt ekki verið opnaður af hálfu Evrópusambandsins en það þarf að gerast áður en formlega er gengið frá samningsafstöðunni af okkar hálfu.

Ég vil spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Hvað tefur Evrópusambandið? Utanríkisráðuneytið hlýtur að vita það. Ég spyr ráðherra hvort hann hafi vitneskju um hvort opnunarviðmið séu í farvatninu, þ.e. varðandi samningsafstöðu okkar í umræddum málaflokki, og voru gjarnan skrifuð á reikning hv. þm. Jóns Bjarnasonar. En nú eru liðnir níu mánuðir síðan hann hvarf úr embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og enn bólar ekki neitt á neinu. Hvað veldur? Er það makríllinn? Því hefur verið haldið fram og ég leyfi mér að halda að hann spili þar inn í. Er það nýjasta kenning hæstv. utanríkisráðherra, hræðsla evrópskra sjávarútvegsfyrirtækja við íslensk fyrirtæki? Því hélt ráðherra fram í nýlegu viðtali við Eyjafréttir. Er það endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar? Því hefur verið haldið fram. Eða er það kannski þvermóðska villikatta VG og skortur á samræmdu göngulagi sem tefur eins og ráðherra hélt fram í Morgunblaðsviðtali í febrúar? Öllum er ljóst að stjórnarflokkarnir ganga ekki í takt í málinu.

Samkvæmt heimasíðu utanríkisráðuneytisins hefur samningahópur um sjávarútvegsmál ekki fundað síðan 12. desember 2011. Það er næstum eitt ár síðan. Hvað veldur? Utanríkismálanefnd hefur ekki fengið að sjá samningsafstöðu sem þó er haldið fram af hæstv. ráðherra í viðtölum í útlöndum að liggi fyrir. Hvað með utanríkismálanefnd og samráðið? Hvað með biblíu hæstv. utanríkisráðherra um að þingið standi ekki frammi fyrir orðnum hlut? Hvað með undanþágurnar? Er hæstv. ráðherra enn þeirrar skoðunar að Íslendingar þurfi engar varanlegar undanþágur frá sjávarútvegsstefnunni?

Hvað með aðra kafla sem hafa tafist? Hvað með fjórða kaflann, um frjálsa fjármagnsflutninga, sem samningahópurinn afgreiddi til aðalsamninganefndar í maí sl. en utanríkismálanefnd hefur enn ekki fengið að sjá þrátt fyrir að ég hafi ítrekað óskað eftir því í nefndinni? Þetta er lykilkafli og snertir sjávarútveginn óneitanlega vegna erlendra fjárfestinga í greininni en mest þó gjaldmiðilsmálin og gjaldeyrishöftin, skjólið sjálft fyrir krónuna sem hæstv. utanríkisráðherra hefur ekki lagt svo litla áherslu á. Og talandi um gjaldmiðilinn: Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig mundu íslenskir kjósendur taka afstöðu til stóra máls Samfylkingarinnar, evruaðildarinnar, í þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarsamning? Ég leyfi mér að fullyrða að það yrði ekki ein einasta evra í pakkanum. Það yrði ekkert að finna um skjólið fyrir krónuna í aðildarsamningi, ekki einu sinni um aðildina að ERM II, fordyr evrunnar. Það yrði ekkert um hvenær við færum þar inn eða á hvaða kjörum við færum inn í ERM II. Ég spyr hæstv. utanríkisráðherra: Er þetta réttur skilningur hjá mér?

Hæstv. ráðherra hefur ítrekað sagst sannfærður um að evrusvæðið eigi eftir að lifa af efnahagserfiðleikana og ég vona það svo sannarlega. Það er okkur öllum í hag. En flestir virðast hins vegar sammála um að eina leiðin til að bjarga svæðinu sé stóraukinn samruni og jafnvel farið að ræða sambandsríki í því sambandi eins og ræða José Manuel Barrosos, forseta framkvæmdastjórnarinnar, gaf nýlega til kynna.

Stóra spurningin er þá auðvitað þessi: Hvaða Evrópusamband er hæstv. utanríkisráðherra að sækja um aðild að? Alla vega ekki það Evrópusamband sem er til núna og það er alveg nóg samt og þess eðlis að Ísland á ekkert erindi inn í það og hefur aldrei átt.

Ég vil að lokum, frú forseti, spyrja hæstv. utanríkisráðherra aðeins út í kostnaðinn við umsóknina og kostnaðinn við breytingar á stjórnsýslunni. Ég hef ekki enn fengið svör um til að mynda aðlögunarstarfið sem var auglýst hjá ríkisskattstjóra. (Forseti hringir.) Er einhver að taka saman þennan heildarkostnað yfir það ferli? Er þetta allt bókað á sama lið á fjárlögunum eða er þetta falið úti um allt í fjárlagafrumvarpinu og fjárlögunum?