141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

staða aðildarviðræðnanna við ESB.

[15:56]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. ESB-umsóknarferlið hefur tekið mun lengri tíma en um var rætt vorið 2009. Samninganefnd Íslands hefur nýlega fengið þau skilaboð að Íslendingar verði sjálfir að leysa gjaldmiðilskreppuna eða eyða snjóhengjunni áður en til ESB-aðildar kemur. Forsendur stuðnings míns við aðildarumsóknina eru því algjörlega brostnar.

Frú forseti. Ég tók þátt í að samþykkja herta stefnu Samstöðu, flokks lýðræðis og velferðar, á landsfundi flokksins nú um helgina. Samstaða telur að hagsmunum Íslands sé best borgið utan ESB og hvetur til endurskoðunar EES-samningsins. EES-samninginn þarf að endurskoða vegna þess að hann hefur breyst úr viðskiptasamningi í aðlögunarsamning sem brýtur í bága við íslensku stjórnarskrána og líka þá norsku.

Við munum ekki fá tækifæri til að taka evru upp á næstunni. Því verður að vinna að því að takmarka ókosti íslensks gjaldmiðils en krónan hefur sjálf valdið miklum gengissveiflum í gegnum tíðina. Taka verður upp sérstakan sveifluskatt á háar fjármagnshreyfingar inn og út úr hagkerfinu. Sveifluskatturinn verður settur á til að draga úr gengissveiflum og hann mun brjóta í bága við EES-samninginn.

Samstaða telur afar brýnt að aðildarviðræðunum ljúki á þessu ári til að þær skyggi ekki áfram á brýnustu efnahagsvandamál landsins, efnahagsvandamál eins og skuldavanda heimilanna og afnám gjaldeyrishafta sem við þurfum að finna leið til að losna við. Það tryggir almenna velferð í landinu og efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar.