141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

staða aðildarviðræðnanna við ESB.

[15:58]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Ég get vel séð fyrir mér þær kringumstæður sem hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir lýsti í upphafi ræðu sinnar hér áðan. Gamall Vestur-Íslendingur segir kannski hátt og snjallt: Ísland hefur ekkert að gera í ESB, ef ég hef það rétt eftir. Væntanlega brestur á með fjöldasöng í kjölfarið, hugsanlega þjóðernisinnblásnum.

Maður heyrir svona setningar býsna oft: Ísland hefur ekkert að gera í ESB. Við eigum að hætta þessu. Það má vissulega gagnrýna að ekki hefur tekist nægilega vel að útskýra það fyrir þjóðinni og fyrir mörgum þingmönnum af hverju við erum að þessu. Af hverju erum við að sækja um aðild að Evrópusambandinu? Mér finnst eins og það sé útbreidd skoðun margra að um sé að ræða gæluverkefni sem varði ekki önnur viðfangsefni í samfélaginu. Það er alrangt.

Alla 20. öldina hafa Íslendingar þurft að glíma við þessa spurningu: Hvernig skilgreinum við samband okkar við Evrópu? Við gengum í EFTA, svo urðum við aðilar að EES-samningnum og nú finnst mörgum það einfaldlega rökrétt skref — fjölmörgum Íslendingum finnst það — að við göngum í ESB. Það er ekki skoðun sem er úr lausu lofti gripin. Við þiggjum löggjöf frá ESB. Allt að 80% þeirrar löggjafar sem er samþykkt í ESB kemur hingað inn og við höfum enga aðkomu að henni. Bara sú staðreynd er nóg fyrir marga sem rök fyrir því að við eigum að ganga í ESB.

Við búum við krónu sem veldur mjög miklum erfiðleikum í efnahagslífinu. Hinn kosturinn við krónu er evra eins og Seðlabankinn hefur rakið. Þess vegna þurfum við að landa samningi við ESB til að geta skorið úr um hvorn valkostinn við (Forseti hringir.) viljum. Nú er aðalmálið fyrir okkur öll að landa góðum samningi og kjósa síðan um hann. Við verðum öll hér inni að standa við bakið á viðræðunefndinni í því verki.