141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

Náttúruminjasafn Íslands.

144. mál
[17:42]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það eru ekki mörg ár síðan lög voru sett um Náttúruminjasafn Íslands sem byggðu á þeirri hugmyndafræði að það yrði eitt þriggja höfuðsafna Íslendinga. Lagasetningin einkenndist af miklum metnaði en við höfum upplifað það að á síðustu árum hefur lítið orðið úr þessu vegna þess að fjármunir hafa ekki verið til ráðstöfunar og fjármunum hefur ekki verið veitt í þennan farveg.

Burt séð frá þessari fortíð og þeim ákvörðunum sem hafa verið teknar á undanförnum árum, vildi ég inna hæstv. menntamálaráðherra eftir því hvert hennar viðhorf væri í þessum efnum. Byggir framtíðarsýn hennar á því að hér verði öflugt náttúruminjasafn? Eða er sýn hennar sú að koma verði þessum málum fyrir með öðrum hætti?

Ég vildi spyrja að þessu vegna þess að mér fannst hæstv. ráðherra vera ívið of tæknileg í svörum sínum. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hver hennar meginhugmynd sé. Að hverju vill hún stefna í þessum efnum?