141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

miðstöð innanlandsflugs.

120. mál
[17:12]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir það með hv. þm. Þór Saari að ágætt er að fá þetta mál á dagskrá til að fjalla um framtíð innanlandsflugsins og miðstöðvar þess á höfuðborgarsvæðinu. Ég hef komið að umræðu um innanlandsflug og miðstöðina í Reykjavík um alllangt skeið, einkum sem borgarfulltrúi í Reykjavík til margra ára og sem formaður í skipulagsnefnd Reykjavíkur, formaður í svæðisskipulagsráði höfuðborgarsvæðisins og sem formaður umhverfis- og samgöngunefndar í Reykjavík.

Á undanförnum árum hefur mikil umræða og umtalsverð vinna farið fram, ekki síst í kringum síðustu aldamót. Þegar verið var að vinna aðalskipulag fyrir höfuðborgarsvæðið allt og aðalskipulag fyrir Reykjavík fór fram mikil vinna við að skoða ýmsa kosti varðandi staðsetningu miðstöðvar innanlandsflugs á höfuðborgarsvæðinu. Ég vil taka skýrt fram í upphafi að ég tel mikilvægt að góðar samgöngur séu á landinu öllu til höfuðborgarsvæðisins og þar með talið flugsamgöngur. Ég hef hins vegar aldrei litið svo á að það sé samasemmerki milli þess að tryggja góðar samgöngur til höfuðborgarsvæðisins og að flugvöllurinn þurfi að vera staðsettur í Vatnsmýrinni. Ég held reyndar að leitun sé að flugvöllum sem eru nánast ofan í miðborginni sjálfri eins og hér er, vegna þess að það er ýmislegt sem fylgir því sem ekki hefur komið fram í umræðunni. Það eru hlutir eins og öryggismálin í kringum flug og sú hætta sem íbúum á höfuðborgarsvæðinu kann að stafa af flugrekstrinum, einkum og sér í lagi ef hér yrðu óhöpp í flugi, sem maður vonar að sjálfsögðu og í lengstu lög að hendi ekki. En að sjálfsögðu er viss áhætta því samfara og eðlilegt er að horfa til þess líka.

Það var ýmislegt sem kom fram í máli hv. 1. flutningsmanns málsins, hv. þm. Jóns Gunnarssonar. Hann fór ágætlega yfir þau rök sem flutningsmenn og talsmenn þeirra sjónarmiða sem birtast í frumvarpinu leggja fram. Ég kom inn á sumt í stuttu andsvari við hv. þingmann áðan. Ég tel að ekki sé hægt að horfa bara á aukinn kostnað sem það kann að hafa í för með sér ef flugið væri annars staðar staðsett en í Vatnsmýrinni, það þarf líka að horfa heildstætt á þann samfélagslega kostnað sem er því samfara að svo stórt landsvæði í miðborg Reykjavíkur sé tekið undir flugvallarstarfsemi. Að sjálfsögðu þarf að fara rækilega yfir það og taka með í heildarumfjöllun um málið.

Það er auðvitað mjög dýrt fyrir höfuðborgina og borgarbúa hvernig borgarskipulagið hefur þróast á mörgum undanförnum áratugum. Það er ekki ný stefna að þróa byggðina sífellt lengra, ég vil segja upp til heiða og fjær þeirri miðstöð sem miðborgin sannarlega er í tengslum við atvinnustarfsemi, stjórnsýslu, menntastofnanir, heilbrigðisstofnanir o.s.frv. Það er mjög dýrt. Það er mjög dýrt fyrir skipulagið, það er mjög dýrt vegna vannýtingar á margs konar innviðum, það er dýrt vegna þess að það kallar á aukinn og mikinn akstur á höfuðborgarsvæðinu sem hefur í för með sér mengun, umhverfisáhrif og umhverfiskostnað, hefur í för með sér aukinn slysakostnað o.s.frv. Allt þetta þarf að taka með í þennan útreikning og þetta dæmi svo það sé skoðað heildstætt. Það er ekki hægt, finnst mér, þrátt fyrir að menn vilji miðstöð innanlandsflugsins á höfuðborgarsvæðinu að láta eins og þeir þættir skipti engu máli og komi dæminu ekkert við því að þeir gera það sannarlega. Vel kann að vera að þegar upp er staðið komist menn samt sem áður að þeirri niðurstöðu að hagstæðara sé að hafa flugið í Reykjavík, miðstöð innanlandsflugs sé í Reykjavík, og það sé ekki flutt en þetta þarf að vera með í heildarmyndinni. Mér finnst ekki hægt að afgreiða svona stórt mál öðruvísi.

Varðandi aðra kosti hefur ýmislegt verið skoðað. Önnur flugvallarstæði á höfuðborgarsvæðinu hafa auðvitað verið skoðuð. Því er haldið fram að þau finnist ekki betri en í Vatnsmýrinni. Og það er áreiðanlega rétt að Vatnsmýrin er, ef við segjum frá flugtæknilegu sjónarmiði, einangruðu flugtæknilegu sjónarmiði, áreiðanlega mjög góður kostur fyrir flugið. En það er bara ekki eini þátturinn í málinu sem þarf að horfa á. Ef flugvöllurinn væri ekki í Vatnsmýrinni og menn væru að byggja flugvöll fyrir Reykjavíkursvæðið þá væru menn áreiðanlega ekki að setja hann niður í miðborginni sjálfri. Það held ég að sé algerlega ljóst.

Auðvitað hafa verið skoðaðir og ræddir kostir þess og gallar að innanlandsflugið flyttist til Keflavíkur, þar sem er flugvöllur. Það er mikill kostur að innanlands- og utanlandsflugið sé rekið á sama flugvelli. Það er mikil samnýting sem felst í því. Og eins og hv. þm. Þór Saari gat um áðan eru það mikil samlegðaráhrif fyrir ferðaþjónustuna að innlands- og utanlandsflugið sé rekið á sama flugvelli en vissulega er það í allmikilli fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu. Það eru 50 kílómetrar eða þar um bil, tæplega, frá Keflavík og til miðborgar Reykjavíkur, það eru um 30–40 mínútur í akstri.

Ég hef lengi verið talsmaður lestarvæðingar þessa ágæta samfélags og flutti þingmál um það sem hefur fengið meira að segja svo náðarsamlega afgreiðslu að vera vísað til ríkisstjórnarinnar til þóknanlegrar meðferðar, væntanlega í samgönguáætlun, en ég hef ekki séð mikið af því verða að veruleika. En ég tel að ef við horfum til framtíðar — þetta mál er þannig að það verður að horfa á það í víðu samhengi — af því að hv. þm. Jón Gunnarsson sagði að það kynni vel að vera að til framtíðar litið væri annar kostur en Vatnsmýrin í boði á höfuðborgarsvæðinu, þá má vel ímynda sér það. Við sjáum nú þegar þróun í því efni í löndunum í kringum okkur að hægt væri að koma upp öflugum lestarsamgöngum milli Keflavíkur og Reykjavíkur sem tækju kannski 15–18 mínútur, þ.e. ferðalagið. Ég tel að það mundi breyta þessari mynd heilmikið ef það væri hluti af einhverri stefnumótun varðandi þróun flugvallarins eða miðstöðvar innanlandsflugs á höfuðborgarsvæðinu, ef í boði væri hluti af slíkri stefnumótun og uppbyggingu að það tæki ekki nema 15–18 mínútur að ferðast á milli miðborgar Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar í öruggum og hraðskreiðum samgöngum, mengunarlitlum. Ég tel að það mundi gera reikningsdæmið allt annað.

Á undanförnum missirum þegar þetta mál hefur verið til umfjöllunar hef ég engu að síður talað fyrir því að menn leituðu leiða til að sameina þau ólíku sjónarmið og viðhorf sem uppi eru. Annars vegar þau sjónarmið að öflugar almenningssamgöngur þurfi að vera í lofti til höfuðborgarsvæðisins héðan og þaðan af landinu. Það er rétt að áfangastöðum hefur fækkað eitthvað en slík tenging þarf að vera til staðar. Hins vegar þurfum við líka að þróa samfélag okkar í höfuðborginni á sjálfbæran og sem vistvænastan hátt sem kostur er og það er að mínu viti ekki með því að taka allt það land sem nú er undir flugvöll í Vatnsmýrinni til þeirrar starfsemi.

Það kann vel að vera að hægt sé að gera þær breytingar á skipulagi í Vatnsmýrinni að hægt sé að samræma þetta eins og hv. þm. Jón Gunnarsson kom inn á í máli sínu, að hægt væri að tryggja meiri uppbyggingu á því svæði til annarra nota en það er í dag en jafnframt að hafa innanlandsflugið áfram þar í einhverri mynd, hugsanlega með einhverjum breytingum á legu flugbrauta, nákvæmari staðsetningu þeirra og með öflugri búnaði að því er varðar flugleiðsögu og flugöryggi. Það kann vel að vera. Mér finnst að þetta þyrfti að vera hluti af framtíðarstefnumótun hvað þau atriði snertir.

Hv. þm. Jón Gunnarsson sagði í máli sínu að ef ein flugbraut yrði lögð af eða ef hér yrði bara ein flugbraut í Reykjavík þá legðist innanlandsflugið af. Ég er ekki sammála því. Ég man eftir greinargerð og athugun erlendra sérfræðinga í flugsamgöngumálum fyrir Reykjavíkurborg á sínum tíma sem gerði ráð fyrir að ef ein flugbraut yrði skilin eftir í Reykjavík gæti nýting flugvallarins farið úr kannski 97–98% niður í 92–94% eða eitthvað þess háttar. Það er vissulega lægri nýting, það er ekki hægt að neita því, en það er ekki samasemmerki á milli þess og að innanlandsflugið legðist af.

Nú er innanlandsflugið rekið þannig að það er yfirleitt annar flugvöllur en Reykjavíkurflugvöllur á hinum enda flugferðarinnar, t.d. Akureyrarflugvöllur, Egilsstaðaflugvöllur eða Ísafjarðarflugvöllur. Mér er ekki kunnugt um annað en að þar sé bara ein flugbraut í gangi. Nú kunna landfræðilegar aðstæður og veðurfarslegar aðstæður að hafa einhver áhrif þar á en engu að síður tel ég að það sé mikil heimsendaspá að telja að innanlandsflug mundi leggjast af ef hér yrði aðeins ein flugbraut. Ég er þó alls ekki að útiloka það að menn gætu horft á það sem einhvers konar málamiðlun að fleiri en ein flugbraut yrðu hér á höfuðborgarsvæðinu og þess vegna í Vatnsmýrinni til einhverrar framtíðar.

Ég tel að það verði að leggja vinnu í heildarstefnumótun að því er varðar miðstöð þessa flugs og það verður ekki gert með því frumvarpi sem hér er lagt fram og ég er andsnúinn því frumvarpi. Ég teldi hins vegar að ef menn tækju ákvörðun um það hér, t.d. með þingsályktun, að fela ríkisstjórninni að setja af stað vinnu við heildarstefnumótun að því er varðar flugsamgöngurnar við höfuðborgarsvæðið og uppbyggingu fyrir höfuðborgarsvæðið til annarra nota þá gæti orðið breið samstaða um slíkt ef þær forsendur væru vel útfærðar og tækju tillit til allra þeirra sjónarmiða sem hér þarf að hafa í huga, bæði útreikning á samfélagslegum ábata og samfélagslegum kostnaði við hinar ýmsu leiðir sem gætu verið í boði, kostnað við innviði ef niðurstaðan væri sú að flytja flugið til dæmis til Keflavíkur, kostnað við innviði að koma upp hraðskreiðum, traustum og öruggum samgöngum. Ég tel að það sé forsendan fyrir því að reka innanlandsflugið frá Keflavík að slíkar samgöngur væru til staðar. Ég vil að það komi fram, ég tel að það sé forsendan. Ég tel að ef þær væru ekki til staðar þá sé það ekki góður kostur að fara með flugið til Keflavíkur. Að því leyti get ég tekið undir viðhorf sem ég skynja í málflutningi hv. þm. Jóns Gunnarssonar.

Ég tel sem sagt, herra forseti, að nær væri að fara af stað með þingsályktunartillögu um að svona heildstæð úttekt á vinnu að stefnumótun til langs tíma skuli sett í gang með aðkomu samgönguyfirvalda, Reykjavíkurborgar og hugsanlega annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, ef menn væru að skoða aðra kosti þar, og með aðkomu hugsanlega skipulags- eða bæjaryfirvalda á því svæði sem Keflavíkurflugvöllur er, sem ég held að sé ekki Reykjanesbær ef ég man rétt, (Gripið fram í: Kannski Sandgerði.) kannski frekar Sandgerði já, en þau sveitarfélög sem þar eiga hlut að máli gætu komið að því, ferðaþjónustan að sjálfsögðu og ýmsir fleiri aðilar sem of langt mál væri að telja upp hér sem gætu komið að slíkri vinnu. Þetta teldi ég vera affarasælli leið vegna þess að hún væri þá að því miðuð að reyna að ná sem breiðastri sátt. Ég tel að skort hafi vilja á það hjá samgönguyfirvöldum og flugmálayfirvöldum í landinu um langt skeið að reyna að ná þessum ólíku sjónarmiðum saman því að vissulega er erfitt að sameina þau, en ekki er þar með sagt að það sé útilokað, en ég tel að viljann hafi skort á það.

Ég tel að margt í tengslum við rekstur flugvallarins hér, umgengni og frágang, hafi heldur gert það að verkum að menn hafa horn í síðu flugvallarstarfseminnar í Vatnsmýrinni og þar hefðu flugrekendur og flugmálayfirvöld á svæðinu getað gert miklu betur ef þau hefðu haft vilja til.

Ég mundi mæla með því, virðulegur forseti, að menn reyndu að koma þessu máli í þann farveg að leita sem breiðastrar samstöðu um framtíðaruppbyggingu. Enda þótt í aðalskipulagi Reykjavíkur sé gert ráð fyrir að ein flugbraut verði lögð af árið 2016 nálgast það ártal óðfluga. Ég get tekið undir það með hv. þm. Jóni Gunnarssyni að slík breyting á umhverfi flugsins í Reykjavík verður ekki gerð nema með góðum aðdraganda og væntanlega er það raunsætt að reikna með því að menn séu fallnir á tíma hvað það snertir varðandi árið 2016. En það breytir ekki því að svona stefnumótun þyrfti að fara í gang og ég tala eindregið fyrir því að menn geri það og séu opnir fyrir ýmsum kostum í því efni, þar með talið stórbættum samgöngum að og frá flugvelli.

Ég hafna því algerlega sem mér var borið á brýn af hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur að ég væri læstur í einhverjum gömlum skotgröfum eða gömlu fari hvað afstöðuna í þessu máli varðar. Ég er þvert á móti mjög opinn fyrir því að skoða þetta heildstætt og alla þætti málsins.