141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

miðstöð innanlandsflugs.

120. mál
[17:42]
Horfa

Flm. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Hún hefur að mörgu leyti verið málefnaleg og ánægjuleg í senn. Kannski má segja að við sem höfum tekið hér til máls séum flest sammála um að Reykjavíkurflugvöllur, eða sú starfsemi sem þar er, er ekki að fara úr Vatnsmýrinni á næstu árum. Það er það sem er óraunhæft í málinu. Það er þess vegna sem þetta mál er lagt fram. Það er til þess að draga fram þær öfgar sem felast í umræðunni um að loka eigi vellinum og flytja allt innanlandsflug til Keflavíkur árið 2016. Við þyrftum að geta náð sátt um að gefa okkur aðeins meira svigrúm í þessu máli.

Þetta þingmál hefði verið hægt að leggja fram, eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson gat um, meira sem úttekt á málinu. Búið er að reyna þá leið í nokkur ár. Hæstv. innanríkisráðherra hefur meðal annars beitt sér í því máli en því miður gengur hvorki né rekur í því. Staðan er að verða það alvarleg að við þurfum kannski eftir eitt ár að fara að undirbúa flutning flugvallarins vegna þess að hann verður staðreynd ef loka á annarri flugbrautinni.

Þær upplýsingar sem hér komu fram, um að nýtingin færi niður í 92%, eru ekki réttar samkvæmt minni vitneskju um málið. Það er samdóma álit þeirra sérfræðinga sem ég hef talað við og séð skrifa um þetta að við það að loka annarri aðalbraut vallarins færi nýtingin það neðarlega — í kringum 80% ef ég man rétt, ég hef smáfyrirvara á þeirri tölu — að völlurinn yrði ekki starfhæfur og mundi ekki uppfylla reglur og skilyrði. Þetta eru bara staðreyndir sem við þurfum að horfast í augu við. Ég sé að þingmenn hér í salnum hrista höfuðið. En þetta eru staðreyndir sem hafa komið fram og meðal annars á málþingi sem haldið var á vegum Háskólans í Reykjavík á síðasta vetri. Þetta eru bara atriði til að kynna sér.

Ég held nefnilega að hægt sé að leika ákveðna millileiki í þessu máli. Ég held að hægt sé að samræma þörf Reykjavíkurborgar fyrir að skipuleggja byggð á hluta af þessu svæði og hafa flugvöllinn áfram. Við skulum horfa til þess, sem kom fram á þessari ráðstefnu, hversu mörg skipulögð svæði eru langt frá því að vera fullnýtt; svæði sem Reykjavíkurborg hefur hafið byggð á og ætti að ljúka áður en farið væri að skipuleggja ný hverfi, þó ekki sé til annars en að byggja þar upp þá þjónustu sem íbúum sem þangað eru komnir hefur verið lofað. Lóðaþörfin er auðvitað miklu minni.

Síðan koma til þessir möguleikar sem hafa verið dregnir fram í þessari umræðu hvort lengja megi flugbrautirnar út í sjó og þar með jafnvel ná enn meira landi undir byggð. Þau öryggisatriði sem hér var farið yfir og ummæli um truflun, eins og það að ekki heyrist mannsins mál á góðum dögum fyrir flugumferð yfir Reykjavík, eru bara öfgamálflutningur sem stenst enga skoðun. Við eigum ekki að fara í þessa umræðu á þeim nótum ef við viljum hafa hana málefnalega. Það sama á við um þann málflutning að það flug sem hér er, og flugsýningar, ógni mjög öryggi íbúa í höfuðborginni — hvað má þá segja um stórborgir eins og London og Kaupmannahöfn þar sem aðflug og flugtak er yfir mjög þéttri byggð? Það er staðreynd, að hluta til er þetta yfir sjó en að hluta til yfir mjög þéttri byggð. Hvernig er þessum málum háttað ef við förum til Þýskalands eða til Parísar? Auðvitað er þetta allt yfir mjög þéttri byggð. Er algengt að slys verði af þess völdum? Nei, sem betur fer er það ekki. Er algengt að slys hafi orðið hér í Reykjavík? Nei, svo er ekki.

Það er rétt, sem nefnt var hér áðan, að kanadísk vél fórst við endann á norður/suður-brautinni 1988 og einnig varð hörmulegt slys í farþegaflugi þegar einkavél fór í Fossvoginn. Ég get nefnt tvö önnur dæmi þar sem einkavélar fóru í Skerjafjörðinn á árunum frá 1990. Slík slys eru sem betur fer mjög sjaldgæft og ef við horfum á þau í samhengi við öryggismál almennt og allar þær hættur sem steðja að okkur í umhverfinu þá er ekki um mikinn áhættuþátt að ræða. Öryggi er alltaf að aukast. Sem betur fer eru flugslys orðin mjög sjaldgæf og flugið er kannski einhver öruggasti ferðamáti sem við getum nýtt okkur.

Það er öryggisatriði fyrir heilbrigðisþjónustuna í landinu að hafa sjúkraflugið og það er ekki rétt að sjúkraflug sé að mestu leyti pantað. Flogin voru 500 sjúkraflug árið 2011, 500 sjúkraflug. Þau eru að mestu leyti tengd flugvellinum á Akureyri og þyrlur geta ekki komið í staðinn fyrir það flug. Það er algerlega ljóst að útilokað væri að sinna þessu með þyrlum. Þyrlur eru mjög góð tæki þar sem þær nýtast en þegar þyrlur eru notaðar, t.d. við leit og björgun, hamlar veður því oft að þær geti nýst að fullu. Við erum með þessa löngu leið milli Norður- og Suðurlands og fjallgarð og hálendi þar á milli. Veður á því svæði hamlar oft flugi eða lengir það mjög á þeirri leið sem þyrlur þurfa að fara. Flugvélar geta aftur á móti flogið upp fyrir þessi veður og komið sér síðan á lendingarstað.

Það er gríðarlega mikilvægur þáttur í starfsemi Reykjavíkurflugvallar, út frá öryggi og ekki síst út frá lífsgæðum þeirra sem kjósa að búa úti á landi, að hafa aðgang að heilbrigðisþjónustunni. Það er mikilvægt að heilbrigðisstofnanir úti á landi hafi bakland í hinni öflugu heilbrigðisþjónustu sem rekin er á höfuðborgarsvæðinu með eins skömmum fyrirvara og hægt er að hugsa sér. Vissulega er hægt að nefna mörg dæmi um að staðsetning vallarins, í nálægð við aðalsjúkrahúsið í landinu, hafi bjargað mannslífum.

Við skulum fara 30 ár aftur í tímann og velta því fyrir okkur hver staðan í innanlandsflugi var þá. Ég man mjög vel þegar flogið var á Blönduós á hverjum degi, Stykkishólm, þrisvar á dag á Rif. Þetta var 1985 og ég get talið upp fleiri staði. Hvernig verður staðan eftir 30 ár? Ný flugstöð var opnuð í Stykkishólmi sumarið 1985, sama árið og hætt var að fljúga þangað. Hvernig verður staðan eftir 30 ár? Ég er að reyna að koma því á framfæri, og við flutningsmenn frumvarpsins, að það er ekki tímabært að loka vellinum. Flestir sem hér hafa talað eru sammála um að ekki sé tímabært að gera það, að meiri aðlögun þurfi, að skoða þurfi hlutina út frá öllum hliðum.

Það er hvatinn sem liggur að baki frumvarpinu að við byggjum þá áfram á því að innanlandsflugið verði í Reykjavík, og það verður þá augljóslega í Vatnsmýrinni. Við erum þá að tala um næstu ár, nokkuð mörg. Ekki endilega svo mörg ár í stóra samhenginu en á næstu árum verður það þannig. Það skapar þær aðstæður að við getum farið að byggja sómasamlega upp fyrir þessa atvinnugrein, fyrir það starfsfólk sem þarna starfar og fyrir þann vaxandi fjölda farþega sem fer þarna um. Þessi starfsemi sinnir mikilvægu hlutverki í nýjungum í leiðavali eins og hjá Flugfélagi Íslands sem hefur í meira mæli boðið upp á flug til Grænlands. Við sjáum hvernig Færeyjaflugið er og hver veit nema við eigum eftir að sjá enn frekari vaxtarbrodd á þessum vettvangi með þeim stærðum af vélum sem Flugfélagið rekur. Er það ekki ánægjulegt, er það ekki bara góð þróun og er það ekki bara góð viðbót í þessa flóru, aukin nýting á mannvirkjum á svæðinu? En til þessa þarf að horfa.

Í sjálfu sér er hægt að draga allan minn málflutning saman í það að menn séu sammála um að nálgast þurfi málið af yfirvegun, að ekki komi til greina að flytja innanlandsflugið strax til Keflavíkur. Þá verður starfsemin hér óbreytt eitthvað áfram. Yfir það reynum við að setjast og ráða síðan í framtíðina, hvaða þróun geti orðið í almenningssamgöngum, í flugtækni o.s.frv.