141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna málefna grunnskólans á Tálknafirði. Þar stóð sveitarfélagið og sveitarstjórnarmenn frammi fyrir því að þurfa að halda uppi skólahaldi en skólastjórinn var farinn og tveir kennarar höfðu hætt um miðjan síðasta vetur. Leitað var ráða hjá menntamálaráðuneytinu meðal annars á fundi í byrjun maí, fundi sem tók reyndar sex vikur að ná vegna máls sem síðar var svo mikilvægt að fara þurfti með það fyrir innanríkisráðuneytið. Gott og vel.

Þau sem standa að sveitarstjórninni í Tálknafirði bera ábyrgð á því að standa fyrir öflugu skólastarfi. Þau stóðu frammi fyrir því að vera með lágmarksmannafla eða að leita til fagaðila á sviði menntamála til að gera það kleift að halda uppi öflugu skólastarfi á Tálknafirði. Það er með ólíkindum að sjá að það virðist skipta ráðuneytið mestu á hvaða kennitölu laun kennara koma í, staðinn fyrir að hugsa um faglegt starf.

Ábyrgð sveitarstjórnarmanna er nefnilega mikil. Þeir þurfa að halda uppi öflugu skólastarfi hvar sem er á landinu. Þau í stjórninni ákváðu, í ljósi þeirra hremminga sem hafa verið í skólastarfinu á Tálknafirði, að leita aðstoðar fagaðila með áratugareynslu á sviði menntamála. Ráðuneytið gerir ekkert í margar vikur þar til þau fá afsvar í bréfi sem var móttekið 2. október og málið var sent til innanríkisráðuneytisins. Þetta er með ólíkindum. Það er með ólíkindum að það virðist skipta ráðuneytið meira máli hverjir það eru sem borga laun kennara í staðinn fyrir að hugsa um metnaðinn sem slíkan í skólastarfinu á Tálknafirði.

Ég tel mikilvægt að sveitarfélögin á landsbyggðinni rétt eins og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafi tækifæri til að þróa skólastarf sitt. Hér er ekki verið að borga skólagjöld. Hér er ekki um að ræða einkafjármagn til greiðslu fyrir skólastarfið (Forseti hringir.) heldur er það sveitarstjórnin á Tálknafirði sem sinnir og ber ábyrgð á skólastarfinu. Hún fær aðila annars staðar að til að standa undir faglegu og metnaðarfullu skólastarfi. (Forseti hringir.) Gegn því er ráðuneyti menntamála í dag að vinna og mér finnst það miður.