141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[17:31]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra spyr hvort ég sjái fyrir mér að Ríkisútvarpið verði á fjárlögum. Ég vil að það fái beint framlag og engar markaðar tekjur. Það er algjörlega skýr skoðun mín og ég held að ég hafi komið vel inn á það í ræðu minni.

Ég nefndi því til stuðnings að ef menn eru að slíta þessi tengsl — ég geri mér grein fyrir því að þau geta auðvitað myndast, ég er ekki að halda öðru fram — hvers vegna þarf þá ekki að slíta til dæmis tengslin við Hæstarétt eða forsetaembættið eða Fjármálaeftirlitið? Við munum eftir þeirri deilu sem varð um Fjármálaeftirlitið á sínum tíma þegar við hækkuðum útgjöldin til þess. Það var út af því að þeir sögðu: Við erum sú stofnun sem á að fá lögum samkvæmt — og þeir voru með lögfræðiálit upp á það — algjörlega óskipt framlagið úr sérstaka tekjustofninum.

Ég benti líka á annað í ræðu minni að Alþingi getur gripið inn í þennan sérstaka tekjustofn af því það eru ákveðnir annmarkar á honum. Bæði er það tekjutengingin og auk þess aldurinn, 16 ára og 70 ára. Alþingi getur auðvitað óbeint gripið inn í og breytt þessum atriðum ef því sýnist svo.

Hæstv. ráðherra hefur sagt að hún líti ekki á þetta sem aukin útgjöld vegna þess að hluti af útvarpsgjaldinu renni í ríkissjóð. Það er auðvitað hægt að hártoga þetta á ýmsan hátt en við vitum, og það kemur auðvitað skýrt fram og er markmiðið, að þegar og ef þessi lög taka gildi munu útgjöldin til Ríkisútvarpsins hækka um 875 milljónir. Hvort það gerist með því að allt gjaldið renni til þess eða hvort menn vilja túlka það þannig að mismunurinn renni ekki í ríkissjóð þá munu útgjöldin engu að síður aukast.

Þess vegna tók ég fyrir forgangsröðunina í ríkisfjármálum og þess vegna getum við líka tekið svo margt annað inn í þessa umræðu. Það væri auðvitað æskilegt að gera það og lengur en í stuttum andsvörum.