141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[17:51]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það sem ég var að segja hér um tengsl á milli forustu RÚV og þingsins kom fram í nefndinni, að það hefðu verið samtöl þar á milli í tengslum við erfitt mál sem ég veit ekkert hvað var þar sem forusta RÚV gat ekki skilið samtalið öðruvísi en svo að ef fréttaflutningur yrði erfiður um málið gæti það haft áhrif á fjárveitingar til RÚV. Það kom fram í nefndinni þegar við vorum að fara yfir þetta mál á fyrri stigum.

Varðandi fjármagn sem fer til heilbrigðismála og til annarra mála hjá ríkinu erum við auðvitað ekki almennt með markaða tekjustofna, en við viljum gjarnan í þessu tilviki vera með markaðan tekjustofn til RÚV vegna þess að við teljum að þá sé það sjálfstæðara. Hins vegar er alveg rétt sem stendur í umsögn fjármálaráðuneytisins að það er ekki fullur aðskilnaður. Þá er spurning: Á að ganga lengra í því með einhverjum hætti, er það hægt? Ég get ekki svarað því. Alla vega er ég tilbúin til þess að skoða þetta ákvæði eins og það liggur fyrir núna og mundi samþykkja að útvarpsgjaldið rynni til RÚV.