141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[17:53]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Þetta er frumvarp sem við fjölluðum ítarlega um í hv. allsherjar- og menntamálanefnd á síðasta þingi og ég fagna því sérstaklega hve vel hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra tekur í þær breytingar sem meiri hluti nefndarinnar lagði til í nefndaráliti sínu á þeim tíma. Nefndin fjallaði ítarlega um málið og gerði allmargar tillögur til breytinga sem hafa verið teknar inn í það frumvarp sem hér er lagt fram.

Ríkisútvarpið er ein mikilvægasta stofnun samfélagsins og hefur sérstöku hlutverki að gegna varðandi lýðræðishlutverkið, óháða fréttaumfjöllun, miðlun íslenskrar menningar af fjölbreytilegu tagi og forustu á sviði innlendrar dagskrárgerðar. Þetta hlutverk hefur alltaf verið fyrir hendi en það má færa rök fyrir því að lýðræðishlutverk Ríkisútvarpsins sé þýðingarmeira fyrir íslenskt samfélag núna en nokkru sinni eftir hrun. Við þurfum ekki að gera annað en að líta til nýlegs dæmis um umfjöllun Kastljóss um bókhaldskerfi ríkisins og aðkomu Ríkisendurskoðunar að því máli til að sannfærast um það hve mikilvæg þessi stofnun er fyrir aðhald að stjórnvöldum og fyrir umfjöllun um mikilvæg samfélagsmál á hverjum tíma.

Það er mín skoðun að meginverkefni löggjafans, þegar kemur að fjölmiðlamarkaðnum og Ríkisútvarpinu, sé að tryggja fjölræði og fjölbreytni á þessum markaði. Það krefst þess að við tökum mjög alvarlega það hlutverk að standa vörð um Ríkisútvarpið en sömuleiðis að tryggja gott jafnvægi á þessum markaði, þ.e. milli Ríkisútvarpsins annars vegar og annarra fjölmiðla hins vegar, og að freista þess að tryggja að Ríkisútvarpið sé á hverjum tíma í sinni fréttaumfjöllun og dagskrárgerð óháð allri pólitískri íhlutun stjórnvalda. Á þeim grunni er ég sammála hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um það grundvallaratriði að við þurfum að standa vörð um fjárhagslegt sjálfstæði Ríkisútvarpsins á hverjum tíma. Ég tel að það sé engin tilviljun að frændur okkar annars staðar á Norðurlöndum hafa farið þá leið að vera með sérstakan markaðan tekjustofn sem er settur upp til þess að tryggja að ekki sé hægt með einföldum ákvörðunum í fjárlögum hvers árs að vega að sjálfstæði stofnunarinnar.

Ég vil hins vegar nefna það í ljósi þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram að auðvitað má finna því stað að upp hafi komið tilvik sem eru sérkennileg. Gefum okkur til dæmis það að í ljósi batnandi efnahagsástands aukist verulega skil einstaklinga á útvarpsgjaldinu þannig að skyndilega komi verulega auknar fjárhæðir við innheimtu útvarpsgjaldsins sem renni þá beint til Ríkisútvarpsins og standi ekki í neinum tengslum við fjárþörf þess til að sinna almannaþjónustuhlutverki sínu. Þetta er atriði sem við ræddum nokkuð í hv. allsherjar- og menntamálanefnd á síðasta þingi og settum inn í nefndarálit okkar að það væri eðlilegt að líta til þess hvort setja þyrfti inn einhvers konar sveiflujafnara til að koma í veg fyrir mjög verulegt frávik til hækkunar eða lækkunar vegna ytri áhrifa sem tengjast ekki beint starfsemi Ríkisútvarpsins eða fjárþörf þess til að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Þetta er ákveðið jafnvægi sem ég tel eðlilegt að nefndin fari betur yfir um leið og ég dreg ekkert úr því að við verðum fyrst og fremst að standa vörð um efnahagslegt og fjárhagslegt sjálfstæði þessarar mikilvægu stofnunar.

Hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hefur farið vel yfir einstök atriði frumvarpsins og ekki er þörf á að endurtaka þau. Ég vil þó hnykkja á örfáum atriðum í breytingartillögum meiri hluta nefndarinnar sem eru nú í frumvarpinu. Þar má nefna að við hnykkjum á því í tengslum við 6. gr. frumvarpsins að inn komi sérstakur nýr málsliður sem fjalli um og geri ráð fyrir því að í þjónustusamningi ráðherra við Ríkisútvarpið sé kveðið á um það hvernig megi tryggja best aðgengi og þjónustu við þá sem búa við fötlun eða eru af öðrum ástæðum ófærir um að nýta sér hefðbundna fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Ég held að þetta sé afar mikilvægt atriði til að tryggja að allir landsmenn geti raunverulega notið þeirrar mikilvægu dagskrár sem Ríkisútvarpið býður upp á.

Í samhengi við það sem ég nefndi fyrr í ræðu minni um jafnvægið sem þarf að vera á milli Ríkisútvarpsins annars vegar og einkaaðila á fjölmiðlamarkaði hins vegar þá tók meiri hluti nefndarinnar stærra skref en lagt var upp með í upphaflegu frumvarpi í þá átt að takmarka umsvif Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði með því að leggja til að Ríkisútvarpinu væri óheimilt að afla tekna með kostun. Þetta hefur verið þyrnir í augum margra í gegnum árin, þessi aukna kostun í Ríkisútvarpinu á dagskrárefni, og ég held að þarna sé mikilvægt skref stigið í þá átt að takmarka það verulega. Nokkurra undanþágutilvika er getið í greinargerð frumvarpsins, svo sem þegar um alþjóðlega stórviðburði er að ræða eins og Ólympíuleika, heimsmeistaramót í knattspyrnu og handknattleik o.s.frv., en meginreglan er skýr.

Hnykkt er á því að í tengslum við stjórnarfyrirkomulagið eigi stjórn Ríkisútvarpsins að móta í samvinnu við útvarpsstjóra dagskrárstefnu og megináherslur í starfi Ríkisútvarpsins til lengri tíma og afar mikilvægt atriði er breytingartillaga við 12. gr. um að útvarpsstjóri skuli hafa samráð við starfsmenn og samtök starfsmanna Ríkisútvarpsins varðandi starfsreglur sem eru settar fréttamönnum og dagskrárgerðarmönnum Ríkisútvarpsins svo og skilyrði áminningar og starfsloka.

Ég læt þetta duga af þeim áhersluatriðum sem komu fram í vinnu meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar á sl. þingi. Ég tek undir orð hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur hér áðan þess efnis að nefndin hafi farið allítarlega yfir frumvarpið og hægt sé að byggja mjög á þeirri vinnu í framhaldinu. Ef vilji er fyrir hendi ætti að vera hægt að klára frumvarpið á þessu hausti.