141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[18:05]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir einlæg og heiðarleg svör. Ég er honum sammála varðandi dreifileiðirnar sem eru í raun risastórt mál. Þetta er gríðarlega stórt mál sem við eigum eftir að fara betur yfir og þá hvernig fyrirkomulaginu verður háttað. Er það svo til dæmis að stór hluti af nefsköttunum eigi að fara í uppbyggingu á alveg sjálfstæðu dreifikerfi sem er þá ríkisrekið við hliðinu á hinu einkarekna? Ég held að þetta séu þættir sem við þurfum að fara betur yfir í meðförum nefndarinnar. Ég fagna því að menn séu alla vega reiðubúnir til að fara aðrar leiðir, og sjáum hvað setur hvað það varðar.

Það er ekkert launungarmál að ég var andsnúin fjölmiðlastofunni sem slíkri en þegar ég var ráðherra var oft þrýst á mig að koma fram með hana. Ef við hefðum átt að auka eftirlit með fjölmiðlum þá hefðum við getað gert það á öðrum forsendum eins og í gegnum Samkeppnisstofnun og farið aðrar leiðir í stað þess að setja á laggirnar nýja ríkisstofnun.

Eftir stendur að það sem skiptir mestu máli, hvort sem það er í gegnum fjölmiðlastofu eða Samkeppnisstofnun, er eftirlitið og þá sérstaklega með þeim þætti sem snertir samkeppni af hálfu RÚV gagnvart einkaaðilum. Það verður að fara að taka til hendinni og hefði mátt gera það fyrr. Ég ætla ekki að draga dul á það. Ég hefði gjarnan viljað sjá það fyrr, meðal annars þegar Sjálfstæðisflokkurinn var við stjórnvölinn.

Ég velti fyrir mér, og þá er ég komin að síðustu spurningunni, því sem varðar kostunina. Það er ljóst að skoðanir voru skiptar í nefndinni, bæði innan meiri hluta og minni hluta. Er hv. þingmaður á því að þessar undanþágur séu nægilega skýrar þannig að menn fari ekki út í það að kosta allt og allt. Í því sambandi spyr ég: Sér hv. þingmaður fram á að allir landsleikir Íslands í handbolta eða í fótbolta verði kostaðir? Sér hann fram á það, af því að hann nefndi ólympíuleika og heimsmeistarakeppni, ef við snúum okkur að menningarviðburðunum, að stórviðburður eins og það þegar Kristinn Sigmundsson, helsti barítónsöngvari heims, syngur í Metrópólitanóperunni, verði sýndur í beinni útsendingu? Er það dæmi um viðburð sem verður kostaður? Hvar liggja mörkin? Ég er svo hrædd um að menn sjái ekki fyrir hvar mörkin liggja og að Ríkisútvarpinu verði gefnar frjálsar hendur. Þess vegna tel ég best að kostun verði algjörlega bönnuð.