141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[18:15]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi það hvort þetta sé rétti tíminn er rétt að svara því til að það ákvæði um markaða tekjustofna kemur reyndar ekki til framkvæmda strax, það kemur ekki til framkvæmda fyrr en 1. janúar 2014. Það mun því ekki verða þannig að verið sé að taka peninga núna sem við gætum verið nota til tækjakaupa á Landspítalanum á næsta ári og láta þá renna til Ríkisútvarpsins.

Önnur spurningin: Er fræðilega séð nokkurn tíma hægt að fullyrða það að menn séu algerlega óháðir fjárveitingavaldinu? Ég ætla ekki að taka svo djúpt í árinni að segja já við því. Ég held að það sé því miður þannig að við getum alltaf fundið einhver tilvik sem ganga gegn meginreglunni en þetta er a.m.k. viðleitni til að skera á þau tengsl. Það er gert bæði með þessu ákvæði um markaðan tekjustofn sem renni þá að fullu til útvarpsins ólíkt því sem verið hefur og í öðru lagi með því að skorið er á það að flokkarnir á þingi skipi sína fulltrúa í stjórn Ríkisútvarpsins. Það er veruleg breyting, sem við höfum reyndar lítið sem ekkert rætt í umræðunni í dag, sem ég tel hins vegar að sé mjög til bóta.

Nú verður fyrirkomulagið með þeim hætti að allsherjar- og menntamálanefnd skipar þrjá fulltrúa í valnefnd sem síðan velur stjórnina saman og þar með er búið að auka þá fjarlægð á milli hins pólitíska valds og stjórnar útvarpsins.