141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[18:33]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að kvarta undan því eins og áður að nefndarmenn í hv. nefnd sem fær þetta mál til umsagnar eru ekki viðstaddir umræðuna. Ég hef margoft bent á að það eru níu nefndarmenn í þeirri nefnd sem fær málið til umsagnar. Það er skylda í lögum að þingmenn sæki þingfundi en mér finnst það líka vera sérstök skylda nefndarmanna að hlýða á umræður til að geta flutt umræðuna inn í nefndina. Það er dálítið ankannalegt þegar búið er að ræða mál í þingsal þar sem komið hafa fram ýmis sjónarmið að þau sjónarmið koma oft og tíðum alls ekki fram í umræðum nefndar eða í nefndaráliti. Ég skora því á frú forseta að taka það upp í forsætisnefnd og ræða hvort ekki ætti að herða á því að þingmenn sem sæti eiga í nefndum sæki þá fundi þar sem rætt er um þau mál sem vísað er til viðkomandi nefnda.

Ég ætla að byrja á því að ræða um ohf. Í hlutafélagalögunum stendur:

„Opinbert hlutafélag merkir í lögum þessum félag sem hið opinbera, einn eða fleiri hluthafar, á að öllu leyti, beint eða óbeint.“

Öll hlutafélög sem ríkið á beint eða óbeint eru ohf. en ekki hefur verið farið eftir því, frú forseti. Bankarnir sem voru stofnaðir eftir hrun og voru alfarið í eigu ríkisins voru ekki ohf. Þingmenn og aðrir gátu ekki sótt aðalfundi þeirra félaga. Hér er þetta kallað ohf. í einni grein en þá vantar tilvísun í þessa sömu grein:

„Slíkum félögum einum er rétt og skylt að hafa orðin opinbert hlutafélag í heiti sínu eða skammstöfunina ohf. og má tengja orðin eða skammstöfunina heiti eða skammstöfun á hlutafélagi.“

Það þýðir að samkvæmt hlutafélagalögum á alls staðar að standa Ríkisútvarpið ohf. Það er skilningur minn og ég vildi gjarnan að hv. nefnd sem fær málið til umsagnar fjalli um það. Nú eru tveir nefndarmenn viðstaddir þannig að þeir gauka því kannski að félögum sínum í nefndinni sem ekki eru mættir, sjö hv. þingmenn eru ekki mættir á þennan fund.

Svo er einn óvirkur aðili í stjórninni. Það skulu vera sjö manns í stjórn og einn þeirra er óvirkur, þ.e. hann hefur ekki atkvæðisrétt. Ég legg til að nefndin skoði hlutafélagalögin og kanni hvort það sé heimilt og hvort ekki sé betra að valnefndin, sú góða nefnd sem stjórnmálamennirnir kjósa — og það er ekkert sem segir að þeir skuli ekki sjálfir kosnir í stjórn, þeir meta sjálfa sig mjög hæfa og allt slíkt — kjósi sex manns í stjórn og síðan hafi starfsmenn áheyrnarfulltrúa í stjórn, ekki stjórnarmann heldur áheyrnarfulltrúa á stjórnarfundum. Það mætti orða það þannig. Þeir hafi málfrelsi, geti komið sínum sjónarmiðum á framfæri en hafi ekki atkvæðisrétt og séu ekki yfir sjálfum sér, eins og ég benti á áður í andsvari.

Þetta var um stjórnskipunina.

Í lögunum stendur að valnefndin skuli tilnefna fimm manns til tveggja ára, með leyfi forseta:

„Áður en stjórn er kosin á aðalfundi skal hún tilnefnd til tveggja ára í senn …“

Getur maður ályktað út frá þessu að stjórnin sjálf sé kosin til tveggja ára? Er ekki rétt að taka það fram í lögunum að stjórnin sjálf sé kjörin til tveggja ára? Það er nefnilega ekkert í frumvarpinu sem segir hversu lengi stjórnin skuli vera kosin. Það er ekki boðlegt að hafa þannig lagasetningu að menn þurfi að draga ályktanir út frá því hvað valnefndin tilnefnir þá lengi. Ég dreg þá ályktun að það sé til tveggja ára, það getur vel verið að það sé til eins árs, ég veit það ekki.

Svo er það draumurinn um óhæði, eins og ég gat um áðan í andsvari. Auðvitað vita starfsmenn hlutafélaga alltaf hverjir skipa stjórn, þeir vita hverjir eiga félagið. Það vill svo til að í þessu tilfelli fara stjórnmálamenn með hlutverk eigandans. Þeir skipa stjórn, þeir ráða fjárveitingum og öllu slíku, þeir geta breytt lögum og ég veit ekki hvað. Einstakir fréttamenn vita þetta nákvæmlega. Þeir vita nákvæmlega hver borgar saltið í grautinn þeirra og þeir vita nákvæmlega hverjum þeir eiga að þóknast. Að láta sig dreyma um að fólk geti verið óháð í svona stöðu er bara draumur vinstri manna. Auðvitað er það ríkisvaldið sem ræður þessu alfarið og stjórnar þessu. Það setur lög, breytir lögum og ræður fjárveitingum alla vega til ársins 2014.

Það er eitt sem ég ætla að koma inn á, frú forseti, sem er mjög athyglisvert.

Hverjir skyldu ráða fram til 2014 eða alla vega fram að kosningum? Hverjir skyldu ráða fjárveitingum þangað til? Það er núverandi ríkisstjórn, hún skal hafa tangarhaldið. Svo óttast hún kannski að hún missi völdin og þá skal hið sjálfvirka kerfi koma inn til að skaffa, gera Ríkisútvarpið að einhverju leyti óháð eigandanum. Ég vona að það sé ekki sett upp kerfisbundið eða að það sé á bak við þetta en þetta er hluti af drauminum um óhæði. En ég er alveg sammála því að það gerir það að einhverju leyti óháðara fjárveitingavaldinu að gera þetta að ákveðnum mörkuðum tekjustofni. En það þarf að breyta þessari tölu, 18 þús. kr., á hverju ári, væntanlega í takt við verðbólgu og annað slíkt. Þar kemur svo aftur vald meiri hlutans sem segir: Nú ætlum við að hafa þetta 16 þús. kr. og vegna þess að fréttastofan fjallaði svo illa um hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um daginn. Eða: Við ætlum hafa þetta 50 þús. kr. á hvern íbúa vegna þess að það var svo velviljuð umfjöllun um mennta- og menningarmálaráðherra eða fjármálaráðherra, sem er enn þá betra, eða formann fjárlaganefndar. Það er vandinn í hnotskurn.

Svo er það spurningin um fjármálin yfirleitt og markaða tekjustofna. Á það er bent í umsögn fjármálaráðuneytisins að þetta eyðileggi í rauninni fjárveitingavald Alþingis nema náttúrlega 18 þúsund kallinn, það er hægt að hækka þá upphæð eða lækka árlega á Alþingi eftir þörfum og það verður væntanlega gert. Það þýðir að menn eru núna að negla niður ákveðna tölu í fjárveitingum til Ríkisútvarpsins. Ég veit ekki hvað fólkið á spítölunum segir við því. Ég veit ekki hvað þeir segja sem þurfa allt að því límbönd til að líma saman geislatækin á spítölunum af því að þau eru svo fjörgömul og hrörleg. Ég veit ekki hvað lögreglan segir við því sem þarf að sinna sífellt stærri og stærri svæðum o.s.frv. Ég veit ekki hvað allt velferðarkerfið segir við því þegar einn þáttur eins og Ríkisútvarpið fær svona markaða stofna. Getur ekki verið að það fari að koma upp vaxandi krafa um það til dæmis hjá heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu að þetta sé sett allt saman í markaða stofna, þ.e. að heilbrigðiskerfið fái til dæmis 2% af launum landsmanna? Ég veit ekki hvað það verður hátt en ég er viss um að það yrði dægilegt og þeim mundi líka það ágætlega. Þá þyrftu þeir ekki að standa í þessum leiðindaslag um peningana.

Vandi okkar er sá að við eigum bara ekki nógu mikið af peningum. Skatttekjur hafa lækkað, það er ekkert fjör í atvinnulífinu og litlar fjárfestingar, það er allt í stöðnun. Þess vegna eru mjög takmarkaðir fjármunir. Vinstri grænir mundu að sjálfsögðu segja: Það er náttúrlega hruninu og Sjálfstæðisflokknum að kenna, það er venjulega tuggan þeirra. En ég ætla sem sagt að benda á að það vantar pening á sama tíma og negla á niður útgjöldin til Ríkisútvarpsins.

Draumurinn um óhæði Ríkisútvarpsins og markmiðin sem fylgja í kjölfarið ollu því að ég lagði fram frumvarp árið 2004 um að selja Ríkisútvarpið. Ég held að það væri ágætislausn. Haft yrði útvarpsráð sem fengi fjárveitingar. Það mundi bjóða út fréttir, öryggisútsendingar og allt það sem þarf að gera, til almennra fjölmiðla. Þá mundi aldeilis myndast fjör á þeim markaði sem framleiðir efni fyrir fjölmiðlun, menn stæðu ekki í vonlausri samkeppni við Ríkisútvarpið sem fær alltaf sína peninga. Ég veit ekki hvernig fólki líður hjá þeim fjölmiðlum sem keppa við Ríkisútvarpið sem fær 3 milljarða sisvona áður en hinir byrja. Ég veit ekki hvernig fólki líður í slíkri samkeppni, hún er algerlega glötuð. Allt er þetta draumur um óháða fjölmiðlun og öll hin fögru orð um að menn gæti sjónarmiða minni hlutans o.s.frv. Ég verð að segja eins og er að ég er farinn að horfa miklu meira á erlenda miðla, mér er farinn að gefast kostur á því með netinu. Ég horfi á þýskt og að litlu leyti breskt sjónvarpsefni og ég fæ allt aðra sýn á heiminn, frú forseti. Ég sé bara heiminn í allt öðru ljósi, til dæmis vandamálin í Evrópusambandinu. Þau eru allt önnur og miklu alvarlegri í þýska sjónvarpinu en hinu íslenska.

Það má vel vera að þetta sé hverfandi vandamál vegna þess að netið muni taka yfir alla fjölmiðlun á ekki löngum tíma. Við getum horft á fjölmiðla um allan heim, lesið blöð og gert hvað sem er kostnaðarlaust. Ég þarf ekki að borga 18 þúsund kall þegar ég horfi á þýska sjónvarpið en því miður get ég ekki sloppið við að borga til þess íslenska. Þó að ég horfi ekkert á íslenska sjónvarpið þarf ég að borga engu að síður, það er bara nefskattur sem ég ber ágætlega en lágtekjufólkið illa. Hann er mjög þungur fyrir lágtekjufólkið.

Þetta er það sem ég vildi geta um í þessu sambandi. Það er mjög margt í frumvarpinu sem mér finnst áhugavert og tel að þyrfti að skoða. Sumt af því er gott. Markaðir tekjustofnar eru góðir ef við ætlum að reyna að halda okkur við að hafa útvarpið að einhverju leyti óháð stjórnmálamönnum, en það verður það aldrei vegna þess að á hverju ári þarf að breyta þessum 18 þús. kr. sem allir þurfa að borga óháð tekjum, gjöldum og eignum o.s.frv. Það er sem sagt mjög ófélagslegt og dálítið skemmtilegt að flokkar sem kenna sig við félagshyggju skuli leggja slíkt til og ekki breyta því.