141. löggjafarþing — 17. fundur,  11. okt. 2012.

launamunur kynjanna.

[10:47]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé alveg óþarfi að ég fari að leita ráða eða fara í lærdóm hjá Árna Sigfússyni í jafnréttismálum. Hv. þingmaður hefði alveg eins getað bent á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem fór í borgarstjóratíð sinni í aðgerðir til þess að jafna kjör kynjanna hjá borginni og varð vel ágengt í þeim efnum. Það er einmitt það sem við höfum talað um, hvort ekki eigi að taka upp jafnlaunapott í tengslum við kjarasamninga til að reyna að vinna á þessum launamun, alveg eins og hún gerði. Það er eitt af þeim málum sem við höfum verið að fara yfir.

Af því að hér er bent á mig og sagt: Hvað hefur þú gert í þessu efni? spyr ég: Hvað hefur Alþingi sjálft gert í því að koma í veg fyrir kynbundinn launamun? Það hefur sett lög, (Forseti hringir.) þau hafa ekki dugað. Það hafa verið settar jafnlaunaáætlanir, þær hafa ekki dugað. Ég er tilbúin að setjast niður með hv. þingmanni og hlusta á hvaða leiðir hún vill (Forseti hringir.) fara í þessu efni vegna þess að þetta er ekki auðvelt verk og það veit hv. þingmaður. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)