141. löggjafarþing — 17. fundur,  11. okt. 2012.

jafnréttismál.

[10:51]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður hefur nú sjálf setið í ríkisstjórn, ég hef meira að segja setið með henni í ríkisstjórn. Ég man ekki eftir mörgum tillögum frá henni til þess að taka á launamun kynjanna. (Gripið fram í.)

Í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur mjög margt verið gert í jafnréttismálum. Í fyrsta skipti í sögunni er kynjajafnrétti meðal ráðherra í ríkisstjórn og í fyrsta skipti í sögunni er nú jafnræði meðal ráðuneytisstjóra, jafnmargar konur og karlar. Við erum að fara í aðgerðir til að stuðla að því með löggjöf sem sett hefur verið að fjölga konum í stjórnum fyrirtækja og hjá lífeyrissjóðum. Hefur ekkert verið gert í því sambandi? Jú, vissulega, það hefur mjög margt verið gert í jafnréttismálum í tíð þessarar ríkisstjórnar. En það er alltaf mjög auðvelt að benda á aðra og segja: Af hverju hafið þið ekki gert eitthvað í málunum?

Ég spyr: Hvað með ykkur? [Kliður í þingsal.] Þið hafið líka setið í ríkisstjórn. Og af því að hv. þingmaður talar um fæðingarorlofið þá erum við að koma út úr verstu kreppu sem við höfum lent í og vissulega þurfti að skerða fæðingarorlofið. En hvað er það fyrsta sem þessi ríkisstjórn gerir þegar hún sér að hún hefur aðeins meira svigrúm í ríkissjóði? Jú, hún endurreisir fæðingarorlofið. Það verður gert þegar á næsta ári og liggja fyrir áform um að lengja það í tólf mánuði á næsta ári. Það hef ég ekki séð neinar tillögur um frá sjálfstæðismönnum.

Ég spyr hv. þingmann, sem talar hér mjög galvösk um fæðingarorlof og jafnréttismál: Hefur hún einhvern tíma verið með tillögur á góðæristíma um að skerða fæðingarorlof? Ég man eftir samtölum um það. Ég ætla ekkert að rifja þau frekar upp hér, en mér finnst það vera að bera í bakkafullan lækinn þegar hv. þingmaður gengur svo langt (Gripið fram í.) að saka okkur um að gera ekkert í jafnréttismálum. (Forseti hringir.) Ég bið hv. þingmann að fara yfir sögu þessarar ríkisstjórnar í þeim málum og bera hana saman við sögu sjálfstæðismanna þegar þeir voru í ríkisstjórn. (Gripið fram í.)