141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

varðveisla íslenskrar menningararfleifðar á stafrænu formi.

158. mál
[17:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna en ég lýsi yfir fullum stuðningi við þessa tillögu til þingsályktunar. Ég bendi sérstaklega á hvað gögnin verða miklu aðgengilegri öllum og nýtast mönnum miklu betur þannig að ég hugsa að arðsemin af verkefninu sé töluvert mikil ef maður lítur á það sem arðsemi að geta haft aðgang að gögnum og upplýsingum, sem verður sífellt verðmætara.

Mig langar líka að benda á hættuna á því að rafræn gögn týnist vegna tækniframfara. Á heimilum landsins er mikið af gögnum; myndir af fjölskyldum, kvikmyndir, æskumyndir og annað slíkt er á rafrænu formi og tækin til að lesa það eru ekki lengur til. Ég vildi því að inn í tillöguna kæmi líka ábending um að haldið yrði í við tækniframfarir með því að uppfæra gögnin alltaf á nýjasta form. Ég vil benda þeim á sem hlusta á mig hér að fara nú í gegnum safnið sitt og láta lesa það yfir á nýja kubba og diska.