141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

Byggðastofnun.

162. mál
[15:31]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Í fyrsta lagi um stöðu lánveitinga eða ábyrgða Byggðastofnunar þá er kveðið á um það í fjárlögum hverju sinni hvaða heimildir Alþingi veitir Byggðastofnun til útlána, það er í 5. gr. fjárlagafrumvarps hvers árs. Þannig segir til dæmis í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2012, yfirstandandi ár, svo við tökum það bara í 5. gr., hinn hefðbundni texti:

„Fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, er heimilað að taka lán, endurlána, veita ríkisábyrgðir og fleira eftir því sem kveðið er á um í ákvæðum þessarar greinar: … 3.4 Byggðastofnun, allt að 3.000 milljónir kr., samanber 15. gr. laga nr. 106/1999, um Byggðastofnun.“

Með sama hætti hljóðar liður 3.1, um Landsvirkjun, upp á 50.000 milljónir kr. og liður 3.2, um íbúðalánadeild Íbúðalánasjóðs, upp á allt að 40.250 milljónir kr. o.s.frv.

Frá þessu er gengið með hefðbundnum og reglubundnum hætti eins og í öllum öðrum tilvikum þegar um ríkisstofnanir, ríkisfyrirtæki og lán með ríkisábyrgð eða endurlán frá ríkissjóði er að ræða. Og hefur svo verið. Ég held því að það sé hafið yfir vafa að að þessu leyti hefur Byggðastofnun einfaldlega byggt á þeim lögheimildum sem hún hefur í fjárlögum hverju sinni og svo á ákvæðum um sjálfa sig í sínum eigin lögum.

Varðandi það sem hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir nefndi hér um Byggðastofnun þá er það út af fyrir sig alveg rétt að þörf er á því að skýra umhverfið hvað varðar framtíðarfyrirkomulagið á þessu sviði. Það hefur reyndar verið í deiglu undanfarin ár og mér er kunnugt um að forverar mínir, einn eða fleiri, á stóli iðnaðarráðherra hafa verið með þetta í skoðun. Það hefur verið rætt hér á þingi í einhverjum mæli.

Nú háttar svo til að búið er að endurskipuleggja þau ráðuneyti sem að þessu koma og það er líka verið að vinna á grunni sóknaráætlananna þannig að það þarf að fara yfir það hvort fyrri hugmyndir iðnaðarráðuneytisins, sem voru meðal annars tengdar þeim stofnunum sem undir það ráðuneyti heyrðu þá og hugsanlegri sameiningu þeirra, eigi nú við eða hvort menn vilja horfa til þess að nú eru fleiri mál komin á eina hendi undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Til viðbótar eru atvinnu- og nýsköpunarmálin, byggðamálin sem voru áður og ferðamálin í iðnaðarmálaráðuneytinu með fleiri einingar, svo sem eins og sjóði á vegum sjávarútvegsins og landbúnaðarins. Ég mundi ætla mér að horfa yfir sviðið í heild sinni eins og það er nú komið með tilurð atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og setja Byggðastofnun, að minnsta kosti lánveitingahluta hennar, inn í þá skoðun.

Ég held að það sé alveg ljóst að við þurfum áfram einhverja fagstofnun á sviði byggðamála, áætlanagerða, rannsókna og greiningar og hvar hún á að vistast getur verið sjálfstætt mál. Það er rétt að halda því til haga að auðvitað hefur líka verið rætt um það hvort byggðamálin væru endilega best komin þar sem þau eru, sem sagt í því ráðuneyti sem fer með atvinnu- og nýsköpunarmál, eða hvort þau sem málaflokkur ættu eins heima hjá innanríkisráðuneytinu sem fer með sveitarstjórnarmál.

Þá gæti komið upp spurningin um það hvort fagstofnun á sviði byggðamála, stefnumótunarstofnun og áætlunargerðastofnun og greiningarstofnun, á endilega að vera sú hin sama og fer með lánveitingar til uppbyggingar atvinnulífs á landsbyggðinni, og því verkefni þarf að sinna. Ég er eindregið í hópi þeirra sem telja að það verði ekki leyst með því að vísa því bara á bankakerfið eða þess vegna sparisjóðina, góðir sem þeir nú eru og eftir því sem þeir eru enn til. En samstarf þarna á milli gæti líka verið kostur.

Ég geri ráð fyrir að yfir þessi mál verði nú farið á grunni þess sem orðið er innan Stjórnarráðsins. Þar á meðal er ekki bannorð að velta upp spurningunni um það hvernig við sjáum best fyrir okkur að byggðamálunum sé skipað til framtíðar, án þess að ég sé nú sérstaklega að mæla með því að verið sé að skutla þeim á milli ráðuneyta svona reglubundið eins og hefur verið gert frá því að þau færðust úr forsætisráðuneytinu á sínum tíma.

Varðandi annað það sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hefur gert að umtalsefni þá skil ég út af fyrir sig þau sjónarmið, og hann reifaði það ágætlega, að ástæða er til að fara yfir það nákvæmlega hvernig einingu menn vilja hafa Byggðastofnun og hvernig menn vilja búa um hana í stjórnkerfinu. Þar hafa verið gerðar á nokkrar breytingar og nú síðast með stjórninni, sem er nú skipuð af ráðherra, og við skulum segja þá á faglegum forsendum en ekki þeim þverpólitísku sem áður lágu til grundvallar því að stjórnin var kosin hér á Alþingi eða skipuð í tilteknu samstarfi milli flokka sem tryggði ákveðna þverpólitíska aðkomu að málefnum stofnunarinnar. En forveri minn flutti hér breytingar og breytti samsetningu stjórnarinnar eins og kunnugt er. Ég held vel að merkja að hún sé bærilega skipuð í dag og ekkert vandamál í sambandi við það.

Ég held reyndar að þessi litla kerfisbreyting, að gera þennan afmarkaða þátt, sem er afgreiðsla lánsumsókna og samþykki eða synjun lánveitinga, meðferð ábyrgða og umsýsla um lán, ekki kæranlegan sem stjórnsýslulán eða stjórnvaldsákvörðun — í sjálfu sér þurfi ekkert að breyta að öðru leyti núverandi fyrirkomulagi ef menn telja það ásættanlegt eða öðru. Það er bara spurning um tvennt: Telja menn annars vegar það heppilegt fyrirkomulag að mörg hundruð fjármálalegar afgreiðslur af því tagi séu kæranlegar eins og hefðbundnar stjórnsýsluákvarðanir til ráðuneytis? Ég held að menn sjái að það gengi náttúrlega aldrei upp ef við værum að tala um jafnviðamikla starfsemi og til dæmis hjá Íbúðalánasjóði.

Það er praktískur veruleiki og hitt er einfaldlega: Hvernig teljum við eðlilegast að umbúnaðurinn sé um slíkar ákvarðanir? Þetta eru fjármálalegar ákvarðanir, þessi þáttur starfseminnar sætir eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Gerðar eru hæfiskröfur til stjórnarmanna að þessu leyti af því þeir eru öðrum þræði stjórn í fjármálastofnun og þurfa því að uppfylla þau skilyrði. Um það má deila hvort það sé endilega heppilegt fyrirkomulag að þar með er sú stjórn sem einnig er yfir Byggðastofnun sem fagstofnun líka sett undir þessar kröfur.

Ég velti upp á þeim tíma möguleikanum á því að sett yrði upp lánanefnd, undirnefnd undir stjórninni, kannski fámennari, sem þyrfti að uppfylla ströngustu kröfur um stjórnarsetu í eftirlitsskyldri fjármálastofnun og hún færi með þessa þætti en ekki endilega stjórnin öll. En niðurstaðan varð sú að stjórnin á öll að uppfylla þessar kröfur og fara svo jafnframt með hið almenna hlutverk.

Ég geri síður en svo athugasemdir, ég bara fagna því að umhverfis- og samgöngunefnd fari þá yfir þennan þátt málsins eins og hér var boðað. Hún er málinu kunnug frá fyrri umfjöllun um frumvarpið og lagði þarna til tilteknar breytingar sem ráðuneytið kaus að taka algjörlega upp eins og þær voru fram settar af nefndinni.

Frú forseti. Ég held ég hafi þá reynt að tæpa hér á því sem sérstaklega var tekið upp í umræðunni eða beint var til mín. Ég endurtek að ég vænti góðs samstarfs við nefndina um farsæla afgreiðslu á þessu máli og treysti á að það fái farsælar lyktir vegna þess að af eða á verður fljótlega að útkljá þetta mál, meðal annars vegna þess að þessi kærufarvegur var mönnum kannski ekki ljós og ekki vel kunnur enda var þetta lögfræðilegt úrlausnarefni á sínum tíma í framhaldi af lagabreytingunni 1999. Það er á grundvelli lögfræðiálits sem kemur 2002 sem þetta skýrist fyrir mönnum að með þessum breytingum á orðalaginu um yfirstjórn ráðherra þá séu þetta í reynd orðnar kæranlegar ákvarðanir, líka hvað varðar lánveitingarnar. Þetta hefur hins vegar ekki verið mikið virkjað fyrr en þá alveg núna upp á síðkastið að mönnum hefur kannski orðið þessi möguleiki betur ljós.

Þá kemur upp sú spurning í hvaða stöðu ráðuneytið er til þess að fara að setja sig efnislega ofan í þetta, vega og meta það sem stjórn Byggðastofnunar, með sérfræðinga sér við hlið, komst að í sambandi við afgreiðslu einstakra lánsumsókna, hvort þar hafi verið faglega og vel unnið. Út af fyrir sig gætu menn reynt að afmarka það við það að eingöngu væri farið ofan í það af hálfu ráðuneytisins hvort réttum leikreglum hefði verið fylgt og úrskurðurinn grundaðist á því. En þetta gæti boðið upp á þann misskilning að menn færu að trúa því að þeir gætu bara hreinlega fengið breytt og snúið við niðurstöðum stjórnar eða stofnunarinnar með málskoti til ráðherrans. Ég held að ekki væri heppilegt að bjóða upp á það, að það færi að verða tilfinning manna að þeir gætu þá bara fengið það leiðrétt í ráðuneytinu sem þeir væru ósáttir við í afgreiðslu Byggðastofnunar.