141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

menningarstefna.

196. mál
[17:54]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um menningarstefnu. Þetta er í fyrsta sinn sem slík tillaga er lögð fyrir Alþingi. Hún á rætur að rekja til samstarfsyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar á sínum tíma þar sem stóð að mótuð yrði menningarstefna til framtíðar í samráði við listamenn og aðra þá sem starfa við menningarmál. Sú vinna hefur farið fram á síðustu missirum og má segja að við höfum tekið þá ákvörðun á einhverjum tímapunkti að rétt væri að við mótuðum ekki bara stefnuna á vettvangi eins og oft er gert og síðan væri hún gefin út sem stefna ráðuneytisins heldur væri mikilvægt að við fengjum líka umræðu um málið á Alþingi af því að þessi stefnumótun snýst um aðkomu ríkisins og hins opinbera að listum, menningarlífi og menningararfi.

Við ákváðum, í ljósi þess að við höfum nýlega gefið út íþróttastefnu sem einnig var unnin með hagsmunaaðilum — við gáfum hana í raun út sem stefnu ráðuneytins í þeim málaflokki og jafnframt er í undirbúningi stefnumótun á sviði æskulýðsmála — að fara aðra leið með þessum hætti. Það er ekki síst gert út af fordæmunum sem við höfum til að mynda frá nágrannaríkjum okkar. Nánast öll stjórnvöld á Norðurlöndum hafa lagt í mikla umræðu innan stjórnmálanna um tilganginn með stuðningi ríkisins við listir og menningarlíf og af hverju ríkið styður við þessi mál og eins hvert leiðarljósið eigi að vera sem fylgja á. Hér er sem sagt reynt að efna til umræðu. Hugsunin er fyrst og fremst sú að ekki er um aðgerðaáætlun að ræða heldur er verið að setja leiðarljós. Síðan eru settir kaflar með markmiðum fyrir hvert og eitt mál. Í nágrannalöndum okkar er mjög löng hefð fyrir stefnumótun stjórnvalda á þessu sviði og hugmyndafræðilegur ágreiningur stjórnmálaflokka um einstök mál hefur ekki komið í veg fyrir að þing á hverjum stað hafi getað komið sér saman um ákveðið leiðarljós til að fylgja í menningarmálum. Ég hef þá trú að hér á landi ríki í grundvallaratriðum nokkuð góð og almenn sátt um helstu þætti ríkisins í að styðja við listir og menningararf en þar kemur ríkið að starfi stofnana sem starfa á landsvísu, starfsemi atvinnufólks í listum og annarri menningarstarfsemi og svo auðvitað með aðkomu sinni að menningarsamningum, sem við ræddum áðan, við landshlutasamtök sveitarfélaga eða einstök sveitarfélög.

Stefnunni er ætlað að lýsa á breiðum grundvelli aðkomu ríkisins að málefnum lista og menningararfs og er rétt að skoða hugtakanotkun hennar í ljósi þeirrar afmörkunar. Henni er ætlað að nýtast stjórnvöldum á Alþingi við frekari umræðu, stefnumótun á afmörkuðum sviðum og ákvarðanatöku. Ekki er verið að fjalla um stefnu í málefnum tiltekinna listgreina eða ákveða aðgerðir þannig að ekki er verið að lofa öllum öllu heldur er horft vítt yfir svið. Við þurfum að kanna hvar við getum fundið samhljóm.

Lengi hefur verið kallað eftir skrifaðri menningarstefnu, getum við sagt. Auðvitað er alltaf einhver stefna í málaflokknum. Hún birtist í lögum, reglugerðum, fjárframlögum og öðru slíku, en við höfum farið í talsvert samráð um málið. Við efndum til ráðstefnunnar Menningarlandið 2010 þar sem fjölmargir ræddu mótun menningarstefnu. Haft hefur verið samráð við ýmsa þá sem starfa á vettvangi menningarmála. Drög að þingsályktunartillögunni voru svo kynnt á vefsvæði okkar. Við höfum síðan fengið umsagnir og óskað eftir umsögnum frá ýmsum þeim sem starfa á þessu sviði og hér er svo niðurstaðan.

Hér liggja fjórir meginþættir til grundvallar. Í fyrsta lagi er stefnunni ætlað að ýta undir sköpun og þátttöku í menningarlífi landsmanna og styðja við fjölbreytni þess. Það er mikilvægt. Við hugum að því að hér býr fámenn þjóð. Fáir tala tungumálið okkar og skiptir þar af leiðandi miklu máli að hér fari fram mikil nýsköpun í því að skapa menningu, tala þetta tungumál og vinna með það, en það þarf líka að huga að því að við höfum mikinn menningararf að verja.

Í öðru lagi er lögð áhersla á gott aðgengi að listum og menningararfi og þar þarf að huga að landfræðilegum þætti sem endurspeglast til að mynda í hugmyndafræðinni um menningarsamninga ríkisins við landshlutasamtök sveitarfélaga. Þarna er líka talað um stafrænt aðgengi, sem ég veit að margir hv. þingmenn hafa hug á að skoðað verði sérstaklega, og standa sem best að kynningu og starfi menningarstofnana. Eins þarf að taka inn í myndina efnahagslegar aðstæður þeirra sem sækja menningarstofnanir, þ.e. hvernig við getum tryggt aðgengi. Það eru auðvitað mörg góð dæmi um það hjá menningarstofnunum okkar að þær sinna skólum, börnum og ungmennum vel, en þær eru staðsettar á höfuðborgarsvæðinu og skiptir miklu máli að kanna hvernig getum við tryggt aðgengi barna og ungmenna um land allt til mynda að sinfóníutónleikum eða leiksýningum.

Í þriðja lagi er áhersla lögð á samvinnu stjórnvalda við þá afskaplega mörgu sem starfa á sviði menningar, það eru sveitarstjórnir, stofnanir, fagfélög, samtök og fleiri.

Í fjórða lagi má finna í stefnunni áherslu á þátttöku barna og ungmenna í menningarlífinu og þarf ekki að fjölyrða um að það er gríðarlega mikilvægt að nýjar kynslóðir kynnist þeim sviðum samfélagsins. Það er gríðarlega mikilvægur liður í samfélagslegri mótun hvers og eins og styrkir þar með samfélagið sem heild þar sem flestir kynnist ólíkum sviðum menningar og lista.

Í upphafi eru sett fram 16 leiðarljós sem ég ætla ekki að lesa fyrir hv. þingmenn, en að loknum þeim taka við sex kaflar sem heita Menningarþátttaka, Lifandi menningarstofnanir, Samvinna í menningarmálum, Ísland í alþjóðasamhengi, Starfsumhverfi í menningarmálum og Starfræn menning. Síðan má finna í hverjum kafla nokkur lykilmarkmið.

Eins og ég nefndi áðan birtist stefna stjórnvalda í ýmsum þáttum. Ég nefndi lög, reglugerðir og fjárlög og má auðvitað nefna líka árangur stjórnarinnar, samninga við stofnanir, samstarfssamninga um ýmis afmörkuð verkefni og rekstur. Segja má að hér höfum við reynt að finna umræðugrundvöll um menningarstefnu sem er um leið í samtali við aðrar stefnuyfirlýsingar stjórnvalda á skyldum sviðum. Ég nefni málstefnuna, ég nefni safnastefnu á sviði þjóðminjavörslu, menningarstefnu um mannvirkjagerð, sem samþykkt var 2007, og síðan að sjálfsögðu þá stefnu sem ég nefndi áðan í íþrótta- og æskulýðsmálum. Síðan er mikilvægt að muna að stjórnvöld eru langt í frá einu gerendurnir þegar kemur að öflugu menningarlífi. Mikilvægasta hreyfiaflið í menningarlífinu eru einstaklingar, einkaaðilar og ýmiss konar félagasamtök. Ég þreytist ekki á að nefna að ef við skoðum hagræn áhrif skapandi greina, sem mér verður svo tíðrætt um, og veltu þeirra er hlutur hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, þar yfirleitt sambærilegur ef við bara horfum nokkur ár aftur í tímann, 20–22 milljarðar, eitthvað slíkt, á meðan heildarveltan er hátt í 589 milljarðar. Ríki og sveitarfélög mynda grunninn sem er mikilvægt til að byggja á, en síðan á sér stað gríðarleg verðmætasköpun þar sem einstaklingarnir eru mikilvægasta hreyfiaflið.

Hlutverk ríkisins er mikilvægt, það skapar þennan grunn. Það er mikilvægt til að viðhalda fjölbreytni menningarlífsins, til að efla og bæta aðgengi að listum og menningararfi og hvetja til þátttöku ólíka þjóðfélagshópa. Það er eitt af því sem ég held að við getum velt fyrir okkur hvort við getum verið á undan öðrum með, því að það er eitt af því sem hin Norðurlöndin spá mikið í, þ.e. hvernig við getum tryggt þátttöku ólíkra þjóðfélagshópa í listum og menningarlífi sem búa við þær aðstæður, til að mynda innflytjendur. Stórir hópar taka ekki þátt í lista- og menningarlífi. Það er eitthvað sem við getum unnið með sem stjórnvöld. Það skiptir máli að auka kröfur um faglegt starf og huga að listfræðslu í menntakerfinu sem kallast á við nýjar námskrár, ástand þeirra og sköpun, læsi og virkni borgaranna.

Það þarf svo auðvitað að huga að menningarstofnunum sem við stjórnvöld stöndum að, það eru mikilvægar stofnanir sem styrkja sjálfsmynd landsmanna, miðstöðvar samstarfs við ólíkra aðila hver á sínu sviði. Það er mjög mikilvægt að þær stofnanir sem fara með opinbert fé hafi fagmennsku og gæði að leiðarljósi og hugi enn og aftur að aðgenginu, að börnum og ungmennum, þ.e. hvernig þær nái til sem flestra.

Það er líka mikilvægt, og um það er rætt í stefnunni, að framlögum ríkisins, sem ekki ganga til að kosta rekstur menningarstofnana eða samninga við landshlutasamtök eða annað slíkt, sé veitt í lögbundna sjóði sem starfa á faglegum grunni. Þeir sjóðir þurfa að vera vel skilgreindir og endurspegla fjölbreytni og þróun menningarlífsins. Í því samhengi vil ég segja að ég er mjög sammála þeirri þróun sem verið hefur frá því að ákveðið var að breyta úthlutunarreglum fjárlaganefndar í fyrra. Ég held að við getum unnið áfram út frá því sem lagður var grunnur að þá, þ.e. að skapa aukna fagmennsku í því þegar opinberum fjármunum er úthlutað til lista og menningarlífs.

Ég nefndi stafræna miðlun áðan. Í samtímanum er mjög brýnt að gera menningararf þjóðarinnar aðgengilegan almenningi á sem flestum sviðum með hjálp stafrænnar miðlunar og um það verkefni þurfa menningarstofnanir að gera áætlanir og hafa samstarf um sín á milli. Margt hefur verið unnið, ég get nefnt sem dæmi Landsbókasafn og Þjóðminjasafn sem hafa staðið sig feikilega vel í ýmiss konar vinnu við að koma menningararfinum á stafrænt form. Hins vegar eru ýmis álitamál sem ekki eru leyst, til að mynda hvað varðar höfundar- og hugverkaréttindi. Þá komum við að Listasafni Íslands, ég held að skipti miklu máli til að tryggja aðgengi allra að því.

Það er mikilvægt að skilgreina rammann sem mótaður er með þingsályktunartillögunni þannig að hann hafi ekki bein áhrif á inntak lista og menningarstarfs. Hugsunin er sú að hið opinbera skapi jákvæð skilyrði fyrir fjölbreytni, sköpun og frumkvæði. Sú stefna sem hér er sett fram miðar að því að standa vörð um sjálfstæð vinnubrögð þeirra sem starfa fyrir opinbert fé og ekki er ætlunin að reyna að hafa áhrif á inntak listarinnar.

Það leikur enginn vafi á því að landsmenn eru áhugasamir um að taka þátt í fjölbreyttu menningarstarfi, njóta og standa fyrir margs konar menningarverkefnum. Við eigum að efla og styrkja þann áhuga. Möguleikarnir eru fyrir hendi. Öflugt og fjölbreytt menningarlíf elur svo af sér virkari sköpun í atvinnulífi, vísindum og nýsköpun og eykur lífsánægju. Atvinnulífið í landinu nýtur með fjölbreyttum hætti þess sköpunarkrafts og þeirrar þekkingarleitar sem á sér stað í lista- og menningarlífi landsmanna og það er mikilvægt. Ég vísaði áðan í þá könnun er gerð var á hagrænum áhrifum skapandi greina. Verkefnið núna er að vinna að því að efnahagsleg áhrif menningarstarfs komi fram með skýrari hætti í hagtölum en verið hefur því að þau hafa ekki verið skilgreind að mínu mati með fullnægjandi hætti, og það er ekki bara mitt mat, það er einnig mat þeirra sem starfa í geiranum, í tölum Hagstofunnar. Það er mjög mikilvægt að við höfum sem best yfirlit yfir stærðir og breytur í þessu starfi.

Í umræðum um mótum menningarstefnu og hvort ráðast eigi í að móta slíka stefnu hefur stundum borið á þeim skilningi að í henni felist einnig aðgerðaáætlun og loforð um auknar fjárveitingar til þessara málaflokka. Því er ekki til að dreifa hér enda er það Alþingis að ákveða fjárframlög hverju sinni og ráðherra og ríkisstjórn forgangsraða verkefnum. Mér fannst mikilvægt, eins og ég sagði áðan, að þetta væri ekki eitthvert loforðaplagg heldur væri það ákveðin hugmyndafræði sem við ræddum hér. Það hafa margir sagt að þá sé þetta bara tal, en ég hef mikla trú á því að tal skipti líka máli því að umræðan leiðir okkur áfram. Við förum kannski að velta því fyrir okkur hvort við séum til að mynda sátt við stuðning ríkisins við menningu, hvort við viljum hafa það með öðrum hætti en verið hefur. Ég held að svona stefnumörkun, sem er dýnamísk og þarf eðlilega að endurskoða á nokkurra ára fresti, geri það að verkum að við hv. þingmenn getum komið saman og rætt um menningarmál í víðu samhengi án þess að vera endilega að ræða tiltekin verkefni eða tilteknar fjárveitingar. Ég held að öllum sé hollt og gott að eiga slíka umræðu.

Ég tel að mikilvægi lista- og menningarstarfsemi eigi eftir að aukast í þessu sífellt fjölþættara samfélagi sem við búum í. Við sjáum bara þann kraft sem einkennt hefur menningar- og listalíf á undanförnum árum þrátt fyrir aðhaldsaðgerðir ríkis og sveitarfélaga í kjölfar efnahagshruns og þverrandi fjárstuðning úr öðrum áttum. Margir sem skoðað hafa Ísland eftir kreppu og horft á aðra þætti en þá efnahagslegu hafa einmitt undrast hina miklu grósku í lista- og menningarlífi hér. Það sást til að mynda í ágætri könnun sem mennta- og menningarmálaráðuneytið lét gera á menningarþátttöku landsmanna að hún afskaplega mikil. Hér syngja 7% landsmanna í kór, svo dæmi sé nefnt. Fjöldi manna tekur þátt í áhugaleikfélögum, fólk fer í bíó, fólk fer í leikhús, fólk fer á tónleika, þannig að þátttakan er mikil.

Ég held að hlutverk menningarinnar í uppbyggingu samfélagsins verði ekki vanmetið. Það skiptir að sjálfsögðu miklu máli að hafa atvinnu og hafa velferðar- og menntakerfi sem eru ákveðnar grunnstoðir, en segja má að menningin sé hið samfélagslega lím, þ.e. límið sem heldur samfélaginu saman þó að mikilvægt sé að hafa allar grunnstoðirnar á hreinu. Ég tel því að menningin leggi sitt af mörkum til almennra lífsgæða landsmanna.

Að lokum vil ég segja það, því að tími minn er liðinn, að ég legg til að þingsályktunartillögunni verði vísað til málsmeðferðar hjá hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Það er von mín að hv. nefnd taki tíma í að ræða stefnuna og velta vöngum yfir þörfinni á henni. (Forseti hringir.) Ég held að sú umræða geti orðið frjó og gefandi.