141. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2012.

störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að blanda mér í umræðuna um ríkisendurskoðanda. Hér kom formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir, og ákallaði forseta þingsins hvað það varðar hvernig samskiptum við ríkisendurskoðanda skuli háttað hjá þinginu. Í mínum huga er þetta alveg skýrt. Stjórnskipun ríkisins liggur fyrir og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og þinginu ber að hafa samskipti við þessa stofnun. Hér er verið að persónugera þau vandamál sem hafa legið fyrir undanfarnar vikur vegna þess að dráttur varð á skýrslu þrátt fyrir að þingmenn liðinna átta til tíu ára hafi samþykkt fjárlög á hverju einasta ári er lúta að því kerfi sem deilan stendur um.

Hér er boðað og kallað eftir því hvenær og hvernig eigi að breyta lögum um ríkisendurskoðanda. Ég vil benda á, frú forseti, að það að leysa vandamál dagsins í dag þýðir ekki að breyta þurfi lögum í framtíðinni. Við störfum eftir þeim lögum sem Ríkisendurskoðun byggir á. Þannig ber að leysa málið. En hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir hefur kosið að koma fram í fjölmiðlum og lýsa yfir fullkomnu vantrausti á ríkisendurskoðanda sjálfan.

Það minnir mig á það að alþingismenn og Alþingi sjálft ber skyldur, frú forseti, því að hér höfum við tvær samliggjandi eftirlitsstofnanir Alþingis, umboðsmann Alþingis og ríkisendurskoðanda. Ríkisendurskoðandi fer yfir fjárlögin en umboðsmaður Alþingis yfir ágalla á lögum. Ég vil minna á það, og kalla eftir úrbótum, að Alþingi sjálft og meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur ekki afgreitt frá sér, eins og ber samkvæmt lögum, undanfarnar þrjár skýrslur umboðsmanns Alþingis, ársskýrslu 2008, 2009 og 2010. Heitir þetta ekki að kasta steinum úr glerhúsi?