141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

atkvæðagreiðslur um þjóðréttarlegar skuldbindingar o.fl.

[10:41]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta er hárrétt munað hjá hv. þingmanni enda les hann væntanlega upp ummæli sem ég viðhafði úr þessum ræðustól. Ég hef skrifað nokkuð um stjórnarskrána og tillögur sem fram hafa komið um breytingu á henni og gert þar fyrirvara við ákvæði sem snýr að beinu lýðræði á þeim forsendum sem hér er vísað til. Ég tel það ákvæði vera allt of takmarkandi varðandi heimildir til þjóðarinnar að krefjast atkvæðagreiðslu um mál sem snúa að fjárhagnum. Ég hef til dæmis minnt á að þegar íhaldsstjórnin breska var felld á sínum tíma var það meðal annars á grundvelli nefskatts sem var mjög óvinsæll í Bretlandi. Samkvæmt þessum tillögum væri óheimilt að krefjast atkvæðagreiðslu um slíkt.

Einnig hef ég haft fyrirvara varðandi þjóðréttarlegu þættina sem ég tel að þjóðin hafi rétt til að krefjast atkvæðagreiðslu um. Þessa fyrirvara hef ég gert. Þegar málin koma að nýju til kasta þingsins mun ég að sjálfsögðu gera tillögur um þetta. Einnig tel ég að skilgreiningar á eignarréttinum séu allt of þröngar í þeim tillögum sem fram hafa komið og tel að þurfi að breyta þeim í grundvallaratriðum. Þá hef ég haft efasemdir um að fella úr gildi 72. gr. stjórnarskrárinnar sem hefur að geyma heimildir til að takmarka eignarrétt erlendra manna á Íslandi, t.d. varðandi landakaup. Þetta er allt rétt munað hjá hv. þingmanni og þegar málið kemur til kasta þingsins að aflokinni þjóðaratkvæðagreiðslu (Forseti hringir.) sem Alþingi hefur samþykkt að fram fari mun ég að sjálfsögðu vekja máls á þessum þáttum.