141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

atkvæðagreiðslur um þjóðréttarlegar skuldbindingar o.fl.

[10:43]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. Nú liggur fyrir að þær tillögur sem á að greiða atkvæði um á laugardaginn innihalda ekki þau ákvæði sem hæstv. ráðherra vitnar hér til og varða beint lýðræði, þ.e. að þjóðréttarlegar skuldbindingar geti farið til þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú liggur líka fyrir að einstakir stjórnarþingmenn, stjórnlagaráðsmenn og fleiri hafa sagt að verði þessar tillögur samþykktar í þjóðaratkvæðagreiðslu á laugardaginn sé Alþingi búið að skuldbinda sig til að breyta ekki tillögunum og að þær eigi að fara í gegnum Alþingi óbreyttar.

Hæstv. ráðherra sagði á þingi að hann gæti ekki stutt þetta mál nema tillögum yrði breytt að þessu leyti og að þjóðréttarlegar skuldbindingar gætu gengið til þjóðaratkvæðagreiðslu og þar er meðal annars átt við mál eins og Icesave. Í ljósi þess langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Telur hann að við getum samþykkt (Forseti hringir.) tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá þegar þetta veigamikla atriði er ekki inni í þeim?