141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

endurmat á aðildarumsókn að ESB.

[10:46]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Í ágúst síðastliðnum barst örvæntingarfullt neyðarkall frá þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þar sem þeir kölluðu eftir því að fram færi það sem kallað hefur verið endurmat á aðildarumsókninni að Evrópusambandinu. Bent var á að forsendur hefðu breyst í Evrópu, bæði pólitískar og efnahagslegar, og óvissa væri um það hvert Evrópusambandið mundi stefna. Síðan eru liðnir um tveir og hálfur mánuður. Við vitum að fyrstu viðbrögð Samfylkingarinnar voru einfaldlega þau að urra á Vinstri hreyfinguna – grænt framboð og svo er að sjá sem þingmenn hennar hafi þar með lyppast niður og ekki þorað að fylgja eftir ákalli sínu um endurmat á aðildarumsókninni að Evrópusambandinu.

Í þessu neyðarkalli var gert ráð fyrir að endurmatið færi þannig fram að stjórnarflokkarnir mundu setjast yfir málið og þá vil ég spyrja hæstv. innanríkisráðherra: Hefur það verið gert? Hafa stjórnarflokkarnir rætt að þetta endurmat fari fram? Stendur það kannski enn þá yfir? Eða er komin niðurstaða í málinu? Gert var ráð fyrir að málið yrði síðan kynnt með einhverjum hætti á Alþingi og við fengjum tækifæri til að ræða þá breyttu stöðu sem sumir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs telja að komin sé upp í ESB-viðræðunum.

Við höfum séð á síðustu dögum að aðlögunin að Evrópusambandinu stendur yfir sem aldrei fyrr. Í morgun heiðraði til dæmis sendiherra í ESB utanríkismálanefnd með nærveru sinni. Í ákalli Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs var hins vegar rætt að þetta mál yrði mögulega sett á ís, það gæti mögulega farið fram þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort halda ætti málinu áfram, eða að málinu yrði haldið áfram eins og ekkert hefði í skorist. Og nú sýnist mér á því sem ég hef séð á síðustu vikum og mánuðum að sú hafi orðið niðurstaðan og Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafi í þessu máli eins og fyrri daginn lyppast niður fyrir hótunum úr Samfylkingunni og þori ekki að fylgja eftir ákalli sínu, (Forseti hringir.) þessu neyðarkalli. Neyðarkallinu hefur sem sagt ekki verið svarað.