141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

248. mál
[11:25]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að beina fleiri spurningum til hv. þingmanns. Sú fyrri varðar trúnaðarmálabók. Fram kom í máli hv. þingmanns áðan að hún teldi ómögulegt fyrir þingið að hafa áhrif á hvað færi í trúnaðarmálabók ríkisstjórnar og hvað ekki. Mér finnst sem þingmanni það alveg kýrskýrt að þingið ræður yfir framkvæmdarvaldinu. Ef þingið setur lög um með hvaða hætti ríkisstjórnarfundir eru ritaðir, hvað verða trúnaðarmál og hvað ekki, beri framkvæmdarvaldinu að fara eftir því. Við getum ekki lúffað þannig. Mig langar að spyrja hana hvers vegna hún telur að Alþingi geti ekki haft áhrif þar á.

Hin spurningin er varðandi það sem hún nefndi áðan um pólitískt líf ríkisstjórnarinnar sem gæti upplýst um. Auðvitað á að upplýsa um allar pólitískar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar, sérstaklega fyrir kosningar en ekki að hafa þær undir feldi í átta ár og þá jafnvel fleiri en eitt kjörtímabil.