141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

stjórnarskrármál.

[14:02]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrir að þessi umræða skuli komast að á dagskrá þingsins. Það er ekki seinna vænna vegna þess að kosning um tillögu stjórnlagaráðs fer fram nk. laugardag. Það hefur verið undarlegt að fylgjast með umræðum um breytingar á stjórnarskránni á þessu kjörtímabili. Það var áður fyrr sameiginlegur skilningur flokka á þingi, hvort sem þeir voru í stjórn eða stjórnarandstöðu, að breytingar á stjórnskipunarlögum skyldi gera í sátt. Þegar skilningur manna er sá er ekki að vænta byltingar á efni þessa grundvallar lagasetningar þjóðarinnar, heldur eru stigin smærri skref af yfirvegun og vandvirkni. Helstu stuðningsmenn tillögu stjórnlagaráðs sem borin verður undir kjósendur um helgina virðast byggja málflutning sinn á því að málið snúist nú annaðhvort um tillögu stjórnlagaráðs eða engar breytingar. En þetta eru óþarfaöfgar í málflutningi. Leið skynseminnar liggur þarna á milli í vel ígrunduðum breytingum á þeim þáttum sem almenn samstaða ætti að geta tekist um. Grundvöllur þeirrar nálgunar er sú afstaða að óþarfi sé að taka stjórnskipunina til heildstæðrar endurskoðunar enda hafa meginstoðir hennar reynst vel.

Þeirri spurningu hefur ekki verið svarað hver þörfin sé á heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar og hverju hún eigi að skila. Ekki hefur því heldur verið svarað hvers vegna þetta mál hefur verið eitt af bráðamálum ríkisstjórnarinnar sem bæði miklum tíma og fjármunum hefur nú verið varið til, að ógleymdri þeirri staðreynd að það hefur frekar vakið upp deilur og ósætti en orðið til að sameina þjóðina.

Því er gjarnan haldið fram um þá sem gagnrýnt hafa það hvernig stjórnarflokkarnir hafa haldið á þessu máli að þeir séu að varpa rýrð á störf stjórnlagaráðs. En það er öðru nær, gagnrýnin snýr fyrst og fremst að því hvernig haldið er á málinu af þingsins hálfu. Það er þingið sem ber ábyrgð á endurskoðun stjórnarskrárinnar og það er löngu tímabært að þingið taki málið til efnislegrar meðferðar. Í þeirri meðferð er þingið að sjálfsögðu óbundið af vinnu ráðs sem það hefur kosið til að vinna að málinu, en að sjálfsögðu hljótum við öll að vona að sú vinna komi að góðu gagni. Ég tók það fram áður en stjórnlagaráð tók til starfa og um leið og stjórnlagaráð hafði skilað af sér sinni vinnu að ég vonaðist til þess að sú vinna mundi skila sem allra mestum árangri og gagnast þinginu í þeim störfum sem það stendur frammi fyrir, þeirri vinnu að taka stjórnarskrána til endurskoðunar eftir því sem þurfa þykir.

Aðalatriði málsins er hins vegar þetta: Tillaga stjórnlagaráðs er ekki tækur grunnur að nýrri stjórnarskrá fyrir okkur Íslendinga.

Að leggja það til við þjóðina á þessum tímapunkti að taka afstöðu til þess hvort þetta geti verið grundvöllur nýrrar stjórnarskrár eru handarbaksvinnubrögð. Það er ekkert öðruvísi, og það er á ábyrgð stjórnarflokkanna að menn skuli stunda slík vinnubrögð héðan af þinginu. Ég leyfði mér í því sambandi að vísa til dæmis til þeirra sem hafa fengið málið til sérstakrar vinnslu, eins og formanns stjórnlagaráðs. Hún sagði í umræðu um niðurstöðu stjórnlagaráðsins sjálfs að það hlyti að vera þannig að þingið tæki málið til efnislegrar meðferðar. Hún og fleiri stjórnlagaráðsmeðlimir hafa sagt að það sæti furðu að þingið hafi ekki fjallað um málið, tekið afstöðu til tillagnanna áður en gripið er til þess ráðs að fara í almenna kosningu um málið. Fær þetta menn virkilega ekki til þess aðeins að staldra við og hugsa hvort þeir hafi mögulega farið fram úr sér? Er það virkilega svo að þegar þeir sem fóru fyrir vinnunni hafa jafnmikla fyrirvara og þetta fólk hefur lýst opinberlega sjái þeir ekki tilefni til þess aðeins að staldra við?

Hér hef ég ekki minnst á það að þingið sjálft taldi að málið væri í þeim búningi að fá þyrfti sérfræðinganefnd til að fara yfir það efnislega. Þeirri vinnu er að sjálfsögðu ekki skilað áður en almennir kjósendur í landinu eiga að taka afstöðu til tillögunnar. Þetta er það sem ég hef kallað fúsk, þetta eru handarbaksvinnubrögð. Þetta eru óásættanleg vinnubrögð af hálfu þingsins.

Þeir sem hafa kynnt sér kjörseðilinn hafa séð að þetta er ekki einföld þjóðaratkvæðagreiðsla þótt hópur fólks hafi tekið það upp hjá sér að segja almenningi að ekki þurfi að eyða nema fimm mínútum í þessa kosningu. Takið bara fimm mínútur, þetta er ekkert mál, segir sá hópur.

Tillaga stjórnlagaráðs er í 113 greinum, auk gildistökuákvæðisins í 114. gr. Ég geri ráð fyrir að það taki flesta lengri tíma en fimm mínútur að lesa, melta og mynda sér skoðun á þeim áður en þeir ganga að kjörborðinu á laugardaginn. Þótt svara megi spurningum með annaðhvort jái eða neii er ekki víst að svarið þýði eitt frekar en annað. Hverju á til dæmis spurningin „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?“ að svara? Spurninguna má skilja svo að hún snúist ekki um það hvort sá sem svarar vilji þjóðkirkju. Augljóslega er ekki verið að spyrja um aðskilnað ríkis og kirkju, þótt sumir hafi bent á að það mætti skilja það þannig, heldur aðeins hvort svarandinn vilji ákvæði um þjóðkirkju í nýrri stjórnarskrá. En við sáum til dæmis í Kastljósi í gærkvöldi stjórnlagaráðsmeðlim halda því fram að það skipti á endanum engu máli hvort ákvæði um þjóðkirkjuna væri í stjórnarskránni eða almennum lögum. Heyr á endemi. Halda menn því virkilega fram að það hafi enga sjálfstæða merkingu, enga þýðingu að lögum, að slíkt ákvæði sé í stjórnarskrá frekar en í almennum lögum? Það er með ólíkindum að þeir sem í stjórnlagaráði hafa setið skuli flytja slíkan málflutning nokkrum dögum fyrir kosninguna.

Má ég benda á að hér á þinginu væri hægt að afnema með einfaldri ákvörðun almenn lög um þjóðkirkju á landinu og málið væri þar með úr sögunni? Í stjórnarskránni hins vegar, ef ákvæðið stendur þar, gera menn engar breytingar á kirkjuskipaninni án þess að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla. Á þessu er grundvallarmunur og þeir sem hafa fengið það verkefni að fjalla um stjórnarskrána sérstaklega ættu að hafa gert sér grein fyrir þessu. Það er grundvallarmunur á því að íslenskum lögum hvort ákvæði um þjóðkirkju er í stjórnarskránni eða ekki.

Fleira mætti að sjálfsögðu tína til. Ég vek sérstaklega athygli á auðlindaákvæðinu. Nú skrifa sumir í blöðin, og þeir sem hafa tekið þátt í umræðunni að undanförnu hafa haldið því fram að Sjálfstæðisflokkurinn hafi sérstakar athugasemdir við auðlindaákvæðið. En þegar grannt er skoðað er það að sjálfsögðu ekki rétt. Ágreiningurinn sem hefur verið á þinginu milli flokka hefur snúist um inntak auðlindaákvæðisins í stjórnarskrá.

Lögspekingar hafa löngum bent á að það sé merkingarlaust að tala almennt um þjóðareign. Í besta falli, eða kannski versta, gæti verið um ríkiseign að ræða enda geti þjóð ekki átt hluti eða farið með þá eins og venja er um eigendur einhvers, þjóðin sjálf færi ekki með eignarhaldið, það yrði handhafi ríkisvalds hverju sinni. Þjóðin sjálf gæti ekki framselt eða veðsett eign sína og þaðan af síður einstakir ríkisborgarar. En þótt ég bendi á þetta þýðir það ekki að ég hafi þá skoðun að ekki sé hægt að nálgast þetta málefni í stjórnarskrá og til þess hefur vilji Sjálfstæðisflokksins staðið um langa hríð. Í stjórnarskrá mætti færa ákvæði um auðlindir í náttúru Íslands sem legði áherslu á sjálfbæra nýtingu slíkra gæða til hagsbóta öllum landsmönnum, t.d. ákvæði í anda þess sem stjórnlaganefndin lagði til eða ákvæði í anda þess sem tveir lögfræðingar lögðu til í sérstöku frumvarpi sem teflt var fram sem eins konar valkosti við tillögu stjórnlagaráðs fyrir nokkrum vikum eða ákvæði í anda þess sem Sjálfstæðisflokkurinn lagði til á sínum tíma í stjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þetta eru allt valkostir sem standa til hliðar við tillögu stjórnlagaráðsins, en menn eru settir í þá erfiðu stöðu þegar þeir ganga í kjörklefann á laugardaginn að þegar þeir svara spurningunni um það hvort þeir vilji slíkt ákvæði í stjórnarskrá eru þeir í fullkomnum vafa um það hvort já við þeirri spurningu þýði að þeir hafi samþykkt útfærslu stjórnlagaráðsins eða hvort opið sé fyrir frekari umræðu um það efni. Þessi vafi skrifast á reikning stjórnarflokkanna sem hafa staðið svona að þessu máli. Ég fullyrði að hér á þinginu ætti að vera hægt að ná fram sátt um útfærslu ákvæðis sem næði öllum þeim markmiðum sem almennt hefur verið talað fyrir í umræðunni hér. Menn hafa verið að búa til ágreining að óþörfu um ákvæði eins og þetta.

Þetta er aðeins eitt af þeim fjölmörgu atriðum sem ég hef hér haft tilefni til að rekja og mun koma betur að í minni síðari ræðu. Kjarni málsins varðandi kosninguna á laugardaginn er þessi: Tillaga stjórnlagaráðs er ekki tæk sem grundvöllur að nýrri stjórnarskrá, því miður.

Þess vegna verða menn að mæta, og ég hvet alla til að gera það, menn eiga að nýta rétt sinn, sérstaklega þegar jafnmikilvægt mál er undir og stjórnarskráin sjálf, stjórnlög Íslands, og hafna því að þetta verði grunnur að nýrri stjórnarskrá. Um leið segi ég þetta: Tökum vinnu stjórnlagaráðsins inn í þingið og reynum að nýta það besta úr henni til að halda vinnunni áfram.