141. löggjafarþing — 22. fundur,  22. okt. 2012.

hæstaréttardómur um gengislán.

[15:07]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við erum ekki að hefja þessa umræðu núna og ég ráðlegg hæstv. ráðherrum að vera ekki að segja frá því að Árna Páls-lögin hafi átt að eyða óvissu. Það er í besta falli tragíkómískt. Við erum að tala um að leiðréttingarnar hafi orðið vegna þess að dómstólar dæmdu lánin ólögmæt. Það sem er búið að flækja málið og gera það erfiðara eru aðgerðir og aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar. Því miður eru fjármálafyrirtækin ekkert í óðaönn að reikna núna. Þau ætla að láta reyna á rétt sinn.

Ég vek athygli á því að ríkisstjórnin kom í veg fyrir að hér yrði afgreitt frumvarp um flýtimeðferð á gengislánum. Ríkisstjórnin sagði: Við munum sjá hér niðurstöður. Hún sagði að þetta yrði búið á haustmánuðum. Það er alrangt, það er ekkert að gerast.

Ríkisstjórnin vildi heldur ekki taka fyrir og afgreiða mál sem sneri nákvæmlega að endurútreikningi á þessum málum. Ríkisstjórnin hefur ekki gert neitt til að hjálpa til, þvert á móti, og ég legg til (Forseti hringir.) að hæstv. ráðherrar í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur fari að einbeita sér að þessum málum. (Forseti hringir.) Fólkið í landinu á það skilið.