141. löggjafarþing — 22. fundur,  22. okt. 2012.

eignir útlendinga í íslenskum krónum.

[15:28]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Þarna er auðvitað um að ræða ólíkar tegundir eigna sem koma út úr bönkunum. Við erum með eignir sem munu breytast í íslenskar krónur eða eru í íslenskum krónum. Við erum líka með erlendir eignir sem, eins og hv. þingmaður nefndi, voru í vörslu Seðlabanka Íslands og eru enn þá. Af því að hv. þingmaður nefndi 315 milljarða þá er það erlend eign gömlu bankanna sem voru í vörslu Seðlabankans. Í því tilfelli var eignin eingöngu millifærð til erlenda viðskiptabankans sem mun sjá um útgreiðslu á því til kröfuhafa við uppgjör. Seðlabankinn mun engu að síður hafa stjórn á því hvernig það er gert.

Virðulegi forseti. Það dæmi sem hér er rætt hefur ekki áhrif á hreinan gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans. Þetta eru nefnilega ekki viðskipti með krónur og skapar þar af leiðandi ekki þrýsting á krónuna. (Forseti hringir.) Það hefur ekki verið litið á þennan þátt málsins sem hluta af útflæðisvanda. Síðan eru öll hin dæmin þar sem Seðlabankinn er með, við skulum segja trygga og örugga sýn á það hvernig menn ætla að gera þetta. Það gerist ekkert fram hjá Seðlabankanum í þessu máli og það hlýtur að vera af hinu góða.