141. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2012.

dýpkunarframkvæmdir í Hornafjarðarhöfn.

211. mál
[16:01]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. innanríkisráðherra varðandi dýpkunarframkvæmdir í og við Hornafjarðarhöfn. Eins og við þekkjum þarf sífellt að dýpka þær hafnir sem liggja við suðurströndina. Ég beindi fyrirspurnum til innanríkisráðherra varðandi þessar framkvæmdir fyrir nokkru og nú leikur mér forvitni á að vita hver staðan er.

Fram hafa farið rannsóknir og líkan verið sett upp varðandi innsiglinguna og grynnslin þar fyrir utan vegna þess að þetta er viðvarandi vandamál og við þurfum að átta okkur á hvernig eigi að taka á því. Eins og við vitum veldur það vanda þegar bátar taka niðri í höfninni við innsiglingu og auðvitað er það mikið tekjutap fyrir samfélagið fyrir austan þegar bátar þurfa að snúa frá og fara enn austar til að landa aflanum í stað þess að landa heima fyrir. Við þetta verður ekki búið. Við þurfum að fá eitthvert plan um það með hvaða hætti verði tekið á þessum vanda þannig að ljóst sé að til framtíðar verði innsiglingarleiðin greið.

Sveitarstjórn fyrir austan hefur beitt sér mjög í málinu og óskar eftir því að fá skýr svör um það með hvaða hætti verði tekið á þessu og auðvitað blöndum við þingmenn kjördæmisins okkur í þessa umræðu eftir því sem kostur er. Ég hlakka einfaldlega til þess að fá að heyra það frá hæstv. ráðherra hvaða áform hann hefur uppi um framkvæmdir til að grípa inn í og leysa þennan vanda.