141. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2012.

húsakostur Listaháskóla Íslands.

147. mál
[17:04]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Herra forseti. Það er ástæða til að þakka þessa umræðu sem er efnisleg og málefnalega góð. Ég tek undir með hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur og reyndar hæstv. menntamálaráðherra líka að listsköpun og nám í listsköpun er gríðarlega mikilvægt fyrir samfélagið og er að mínu viti einn af lykilþáttum við að sækja fram fyrir íslenska þjóð. Ég tel að það verði þannig að við þurfum hvort tveggja á tæknimenntuðu fólki að halda í æ ríkari mæli inn í framtíðina og síðan fólki sem á listnám að baki.

Það eru gríðarleg sóknarfæri á báðum þessum sviðum og ef við ætlum að auka hér störf í hinum skapandi greinum þá leggst þetta tvennt saman; tæknigreinarnar og listnámið í mjög þróttmiklu samstarfi. Á það hefur verið bent að þær greinar þurfa öðru fremur að svara þeim fjölda fólks sem kemur út á vinnumarkaðinn á næstu árum því að fjölgunin verður ekki í sjávarútvegi miðað við tækniframfarir og heldur ekki í landbúnaði miðað við tækniframfarir. Þær verða fyrst og síðast í tæknigreinunum og hinum skapandi greinum. Þess vegna þurfum við að byggja undir nám krakkanna okkar, ungmennanna á því sviði. Þess vegna þurfum við að sýna þá djörfung að teikna upp komandi háskóla listanna til að þau hafi og sjái að stjórnvöld meina eitthvað með stefnu sinni í þessum menntamálum.

Ég þakka fyrir svar hæstv. ráðherra en spyr hana jafnframt að því hvar hún sjái nýjan Listaháskóla Íslands rísa. Ég sé hann fyrir mér rísa (Forseti hringir.) að sjálfsögðu í Reykjavík, en hvar og hvenær?