141. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2012.

húsakostur Listaháskóla Íslands.

147. mál
[17:06]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka á ný fyrir þessar umræður. Ég held að skapandi greinarnar og listirnar séu í raun og veru á mjög merkilegum stað núna. Á þeim fundi sem ég vísaði í áðan var farið yfir starfsumhverfi skapandi greina, sem er að mörgu leyti frekar óformbundið ef við getum rætt það sem slíkt, það er mjög formbundið þegar við hugsum um þetta sem listastarfsemi, en þar sem frumsköpuninni sleppir og við getum farið að tala um þetta sem atvinnugrein þá þarf að formgera betur aðkomu stjórnvalda og hvernig við getum byggt slíkt starfsumhverfi upp. Og þar var sú samlíking rædd að kannski væru skapandi greinar núna á þeim stað þar sem ferðaþjónustan var fyrir 20 árum. Það er mjög spennandi framtíðarsýn sem þarna má finna. Það er mín bjargfasta trú að Listaháskólinn hafi þar lykilhlutverki að gegna.

Hv. þingmaður spyr hvar og hvenær. Svar mitt er: Það er of snemmt að segja til um það. Það eru ýmsir möguleikar í stöðunni en ég horfi fyrst og fremst á það að mjög æskilegt væri að ná fram sýn til lengri tíma og hvort einhverjar lagfæringar þurfi að gera á núverandi húsnæði þar til hún getur orðið að veruleika. Það væri mjög gott að hafa einhverja aðgerðaáætlun og sýn fyrirliggjandi á þessum vetri.