141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrármál, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:01]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Til hamingju Ísland. Íslenska þjóðin hefur talað. Nú er verkefni okkar alþingismanna að fylgja skýrum skilaboðum frá ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu síðasta laugardags og ljúka gerð tillögu um nýja stjórnarskrá og leggja hana fyrir þjóðina á næsta ári til afgreiðslu.

Eftir kosningarnar í apríl 2009 flutti ríkisstjórnin frumvarp til laga um stjórnlagaþing. Skilaboðin voru þá að endurskoða þyrfti stjórnarskrána í heild og að við vildum að þjóðin kæmi að því verki, málið yrði tekið frá Alþingi og fært þjóðinni til frekari úrvinnslu. Mikil umræða var um málið og tókust hv. þingmenn og flokkar á um hvort og þá hvernig skyldi haga málum. Niðurstaðan varð sú að halda þjóðfund, fá sérfræðingahóp eða stjórnlaganefnd til að fara yfir málið og vinna tillögur og kjósa síðan til stjórnlagaþings sem varð raunar stjórnlagaráð sem ynni að tillögum að nýrri stjórnarskrá. Allt þetta ferli hefur tekist. Alþingi ákvað að leita til þjóðarinnar að nýju um álit á fyrirliggjandi drögum um leið og ákveðin álitamál voru dregin sérstaklega fram til að fá leiðsögn þjóðarinnar um einstök atriði.

Eins og áður sagði liggur niðurstaðan fyrir. Þjóðin hefur talað. Það var ánægjulegt að sjá að fólk hafði svarað spurningunum út frá eigin hugmyndum, aðstæðum og óskum. Þannig komu fram mismunandi sjónarmið. Þjóðin valdi meðal annars að halda ákvæði um þjóðkirkjuna inni í stjórnarskrá gegn tillögu stjórnlagaráðs.

Nú hefur þjóðin aftur afhent Alþingi verkefnið að nýju og Alþingi þarf, eins og ég sagði áður, að ljúka frumvarpinu og auðvitað eigum við að reyna að gera það í sem mestri sátt. Það krefst þess að allir aðilar horfi til niðurstöðunnar og nálgist verkefnið af þeirri auðmýkt að taka niðurstöðu kosninganna alvarlega.

Ýmis atriði sem komu út úr þessari ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu og frá þjóðinni gefa afdráttarlaus og skýr skilaboð sem geta haft áhrif á lagasetningu og stefnumótun á næstu árum. Mest afgerandi var stuðningur við ákvæði um auðlindir í þjóðareign þar sem talað er um að auðlindir skuli vera sameign og ævarandi eign þjóðarinnar, en samþykkt þess getur haft áhrif á lagasetningar eins og um fiskveiðar svo að eitthvað sé nefnt. Þar er krafan um jafnræði, þar er krafan um að úthlutun afnotaréttar sé í hóflegan og takmarkaðan tíma og fullt gjald komi fyrir. Þetta nýtur ótvíræðs stuðnings íslensku þjóðarinnar og eftir þessu eigum við að fara.

Ég treysti því að allir þingmenn, allir stjórnmálaflokkar á Alþingi taki niðurstöður ráðgefandi kosninga að nýrri stjórnarskrá alvarlega og vinni af heilindum við að fínpússa, lagfæra og samræma niðurstöðurnar og skila málinu þannig í endanlegu formi til afgreiðslu þjóðarinnar í næstu kosningum.