141. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2012.

nýsköpunarátak til að stórefla heilsársferðaþjónustu úti á landi.

249. mál
[16:19]
Horfa

Flm. (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um nýsköpunarátak til að stórefla heilsársferðaþjónustu úti á landi. Hér er um endurflutning á málinu að ræða sem upphaflega var lagt fram á þinginu á síðasta vetri. Sá sem hér stendur telur afskaplega brýnt að farið verði að huga að nýjum leiðum í ferðaþjónustu hér á landi sem hefur vaxið að miklum mun á undanliðnum árum, og er það vel.

Engu að síður er svo komið að ferðaþjónustan á sumum svæðum á Íslandi er komin að mörkum þess sem hægt er að búa við. Sum svæði eru gjörnýtt þegar kemur að ferðaþjónustu, einkanlega á suðvesturhorninu, og er nú svo komið að menn eru þar farnir að tala um ferðamannamengun, mengun af völdum ferðamannanna sjálfra. Slíkur er fjöldi þeirra á vinsælustu ferðamannastöðunum á þeim svæðum sem næst liggja helsta millilandaflugvelli landsmanna, Keflavíkurflugvelli.

Þessi tillaga tekur á því máli. Það er mat langflestra sérfræðinga, ef ekki allra, að fara verði að huga að því hvernig við beinum ferðafólki, bæði innlendu og erlendu, sérstaklega erlendu, til fleiri svæða hér á landi en sem nemur þeim sem næst eru suðvesturhorninu og hvernig við dreifum því ferðafólki betur yfir árið.

Á undanliðnum árum hefur orðið gríðarleg aukning í komu erlendra ferðamanna til Íslands og má segja að um byltingu sé að ræða. Um og upp úr 1980 komu innan við 100 þús. erlendir ferðamenn til landsins en á yfirstandandi ári losa þeir um 600 þús. þannig að á 30 ára tímabili hafa þeir sexfaldast. Aukningin verður að öllum líkindum enn hraðari á komandi árum enda er um spíral að ræða og má búast við því að milljónasti erlendi ferðamaðurinn á einu ári komi hingað til lands á næstu fimm til sex árum eða svo.

Þessari tillögu til þingsályktunar fylgir ítarleg greinargerð en fjöldi þingmanna er meðflutningsaðili að henni og er það vel, úr öllum stjórnmálaflokkum sem eiga sæti hér á Alþingi. Ég tel að það muni vera hægt að ná mjög breiðri pólitískri sátt um málið enda er það í öllum atriðum ferðaþjónustugreininni mjög til framdráttar ef og þegar tillagan verður samþykkt á hinu háa Alþingi.

Frú forseti. Mig langar aðeins að vitna stuttlega í greinargerð sem fylgir þingsályktunartillögunni og liggur frammi í sölum Alþingis en þar segir:

„Með þingsályktunartillögu þessari er ætlunin að bregðast við gríðarlegri fjölgun erlendra ferðamanna til landsins á síðustu árum og spám um að þeim fjölgi enn frekar. Ljóst er að margir helstu ferðamannastaðir á suðvestanverðu landinu, sem liggja næst Keflavíkurflugvelli, þola vart eða ekki meiri ásókn ferðamanna á háannatíma, nema gripið sé til aðgerða sem mögulega spilla ásýnd og yfirbragði þess sem ferðamenn sækjast eftir. Einn helsti veikleiki íslenskrar ferðaþjónustu er annars vegar mikið álag á ferðamannastaði yfir sumarið og hins vegar lítil dreifing erlendra ferðamanna utan höfuðborgarsvæðisins og Suðvesturlands utan sumartímans.

Það er af þessum sökum afar brýnt að fjölga áfangastöðum á landinu svo að álag af völdum ferðamanna dreifist betur en nú er. Hætt er við því að ella glatist upplögð sóknarfæri í þessari mikilvægu atvinnugrein. Hér er um mikla fjárhagslega hagsmuni fyrir íslenskt samfélag að ræða, enda er ferðaþjónusta ein af þremur meginstoðum atvinnulífs í landinu og er í þriðja sæti hvað varðar útflutningstekjur sem landið aflar. Ferðaþjónusta skapar 16,9% af tekjum þjóðarinnar (samkvæmt tölum frá 2008) og telur Hagstofan að árið 2008 hafi heildarkaup á ferðaþjónustu hér á landi numið tæplega 171 milljarði kr., eða sem svarar til 11,5% af vergri landsframleiðslu.

Með tillögunni er þess freistað að styrkja ferðaþjónustu á landsbyggðinni í fullu samræmi við markmið sóknaráætlunar 20/20 um tímabundinn stuðning við vaxtargreinar, sérstakan stuðning við vetrarferðaþjónustu, stuðning við klasasamstarf fyrirtækja og umhverfismál ferðaþjónustu. Tillagan tekur einnig tillit til nýrrar ferðamálaáætlunar stjórnvalda þar sem áhersla er lögð á vetrarferðamennsku og fjölgun viðkomustaða fyrir allan þorra ferðafólks sem sækir landið heim.

Í þessari tillögu er sérstaklega horft til þess svæðis á landinu utan stærsta þéttbýliskjarnans sem getur á sem auðveldastan hátt tekið við auknum straumi ferðamanna á næstu árum, en þar er átt við svæðið frá Húnavatnssýslum og austur á firði með augljósum miðpunkti í Eyjafirði þar sem fullbúinn millilandaflugvöll er að finna, svo og sterka innri samfélagsgerð í langfjölmennasta þéttbýliskjarnanum utan höfuðborgarsvæðisins. Á þessu svæði, sem liggur beggja vegna Tröllaskaga og austur á firði, hefur á síðustu árum orðið gríðarleg uppbygging í fjölþættri ferðaþjónustu; jafnt íþrótta-, afþreyingar- og menningarstarfsemi, auk þess sem framboð á hótelum, gistihúsum og veitingahúsum á Norðurlandi hefur aukist hröðum skrefum á tiltölulega stuttum tíma. Þá er það einnig liður í þeirri tillögu, sem hér er gerð grein fyrir, að nýta betur innviði ferðaþjónustunnar utan höfuðborgarsvæðisins og þá miklu fjárfestingu í samgöngu- og menningarmannvirkjum sem sveitarfélög — og ekki síst ríkið — hafa ráðist þar í á síðustu árum. Þar nægir að nefna lengingu millilandaflugvallarins á Akureyri, nýleg (og áætluð) jarðgöng í Eyjafirði, uppbyggingu Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands á sama stað, viðamikla og stóraukna rannsóknarþjónustu Háskólans á Akureyri og byggingu menningarhússins Hofs.

Ferðaþjónusta á Norðurlandi, og raunar víðar á þeim svæðum sem liggja fjærst suðvesturhorninu, hefur að mörgu leyti liðið fyrir þá staðreynd að yfirgnæfandi meiri hluti ferðamanna sem kemur til landsins, rúmlega 97,7% (samkvæmt tölum Isavia 2009), fer um Keflavíkurflugvöll og dvelur þar af leiðandi mestmegnis á sunnan- og vestanverðu landinu. Til samanburðar má geta þess að hlutdeild Akureyrarflugvallar í þessum hópi ferðamanna er innan við hálft prósent. Því má segja að þeirri auðlind sem ferðafólk er í atvinnulífi landsmanna sé misjafnlega skipt milli landshluta. Það hefur bein áhrif á vaxtarmöguleika greinarinnar frá einu svæði til annars, eins og allar tölur og rannsóknir benda til. Gagnaöflun á sviði ferðamála, sem er m.a. í höndum Ferðamálastofu og Hagstofu Íslands, virðist sýna að staðsetning flugvallar skiptir sköpum um ferðamunstur fólks: Þeir sem lenda í Keflavík dvelja að meðaltali 1,8 nætur á Norðurlandi, en þeir sem lenda á Akureyri dvelja að meðaltali 7,8 nætur á Norðurlandi.

Hér ber allt að sama brunni: Rannsóknir Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála benda líka eindregið til þess að erlendir ferðamenn fljúgi varla beint til Akureyrar nema þeir hafi áður komið til Íslands: 60% erlendra ferðamanna sem fljúga beint að utan til Akureyrar hafa áður komið til landsins, en 18% erlendra ferðamanna sem koma til Keflavíkur eru endurkomufarþegar. Þá sýna nýjar rannsóknir enn fremur að einungis 6% útlendinga sem lenda í Keflavík dvelja mestan sinn tíma á Norðurlandi, en 76% þeirra halda sig aðallega á Suðurlandi. Dæmið snýst algerlega við hjá þeim erlendu ferðamönnum sem fljúga beint til Akureyrar, 20% þeirra ferðast um sunnanvert landið, en 92% þeirra verja mestum ferðatíma sínum á Norðurlandi.

Í þessu efni er einnig rétt að hafa hagtölur í huga. Á árunum 2004–2008, sem er langmesta hagvaxtarskeið í sögu ferðaþjónustu á Íslandi, var hagvöxtur mjög misjafn milli landshluta á Íslandi. Á þessu árabili nam hann 41% á höfuðborgarsvæðinu, en var mun minni úti á landi og raunar neikvæður (-6%) í tveimur landshlutum; á Norðurlandi vestra og á Norðurlandi eystra. Gera má ráð fyrir að misjöfn skilyrði til vaxtar ferðaþjónustu hafi hér haft sín áhrif, en stjórnvaldsaðgerðir á hverjum tíma hafa þar mikið að segja.“

Frú forseti. Þetta var stutt tilvitnun í annars ítarlega greinargerð sem fylgir þessari tillögu til þingsályktunar um nýsköpunarátak til að stórefla heilsársferðaþjónustu úti á landi.

Ég tel hér vera um mjög brýnt hagsmunamál að ræða fyrir íslenska ferðaþjónustu sem mun á næstu árum sækja mjög fram og vonandi ná til allra landshluta í auknum mæli. Allir hagsmunaaðilar sem ég hef borið þessa þingsályktunartillögu undir, hagsmunaaðilar í ferðaþjónustu og atvinnulífi, fagna henni mjög og eru sammála því að hún geti bætt mjög nýtingu í þeirri þjónustu og dreift ferðamönnum betur yfir landið og betur yfir árið sem eru, eins og ég gat um í upphafi, brýn úrlausnarefni í þessari annars gróskumiklu atvinnugrein. Það er ánægjulegt að sjá hversu margir lögðu þeim sem hér stendur lið við gerð þingsályktunartillögunnar og styðja hana. Ég tel að hér sé um þverpólitíska tillögu að ræða sem þingheimur getur meira og minna sætt sig við enda eykur hún hér hagvöxt og breiðir hann út um landið og nýtir miklu betur þá innviði og þá fjárfestingu sem þegar hefur verið lögð í greinina.

Allar aðrar þjóðir sem við berum okkur saman við hafa farið þessa leið í meira eða minna mæli. Auðvelt er að benda á Norðmenn og Finna sem hafa aukið ferðaþjónustu sína markvisst á svæðum sem liggja fjær höfuðborginni. Má þar nefna dæmi Norðmanna sem hafa með markvissum hætti aukið veg alþjóðaflugvallarins í Björgvin með þeim afleiðingum að þangað sækir nú mikill fjöldi erlends ferðafólks sem fyrir vikið dreifist betur yfir það langa land sem Noregur er. Einnig má nefna glæsilegt dæmi frá Finnlandi í þessum efnum. Í borginni Rovaniemi sem liggur ofarlega í því ágæta landi hefur verið gert gríðarlegt átak í vetrarferðaþjónustu á undanförnum árum með þeim glæsilega árangri að 600 þús. erlendir ferðamenn leggja leið sína til þess tiltölulega litla bæjar í desembermánuði einum, en þangað komu svo að segja engir erlendir ferðamenn á þeim tíma árs fyrir örfáum árum.

Dæmin sýna að fjöldamargar þjóðir eru að fara þessa leið. Stjórnvöld í þeim löndum sjá að það gengur ekki að beina ferðafólki einvörðungu á örfáa staði og fullsetja þá. Það hefur umhverfisleg áhrif sem geta verið mjög miður og á endanum fælt ferðamenn frá viðkomandi löndum fremur en toga þá til þeirra. Ég tel því að öll rök falli með þessari þingsályktunartillögu ef við höfum ferðaþjónustuna í heild sinni í huga og umhverfismál tengd henni. Ég legg því til að tillagan fái góða og eðlilega meðferð samkvæmt þingsköpum í þeirri nefnd sem við á.

Ég lýk máli mínu, frú forseti, með þeim orðum að vísa þingsályktunartillögunni til efnislegrar meðferðar í hv. atvinnuveganefnd og vænti þess að þar fái hún gott brautargengi og komi á ný inn í þingsal.