141. löggjafarþing — 26. fundur,  25. okt. 2012.

skerðing elli- og örorkulífeyris.

[10:49]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Varðandi almannatryggingarnar almennt er ástæða til að vekja athygli hv. þingmanns á því að starfandi hefur verið hópur um endurskoðun á almannatryggingalöggjöfinni þar sem allir stjórnmálaflokkar og hagsmunasamtök hafa verið við borðið, að vísu með því fráviki að Öryrkjabandalagið hefur dregið sinn fulltrúa út úr vinnunni. Eitt af þeim meginmarkmiðum sem þar kemur fram er einmitt að styrkja samhengið á milli lífeyrissjóða og almannatrygginga, gera skýrari ávinninginn af því að hafa greitt í lífeyrissjóð þannig að það skili sér til eldri borgara og raunar öryrkja líka.

Í þessu samhengi var líka búið að samþykkja lög um víxlverkun sem áttu að tryggja að það sem yrði um að ræða væri ákvæði um að ef annar aðilinn hækkaði skerti það ekki hjá hinum. Það er í fjárlögum fyrir árið 2013 og er líka komið í framkvæmdahluta núna. Það hafði þó verið gert áratuginn á undan. Það var líka ákveðið að frítekjumark á lífeyri kæmi inn í þremur áföngum þannig að fyrsta greiðsla af þessum 29.100 kr. sem yrðu frítekjur fyrir lífeyrisþega kæmi núna. Það er gert ráð fyrir henni í fjárlagafrumvarpinu á næsta ári. Allt hefur þó áhrif á það hvernig almannatryggingafrumvarpið verður afgreitt en vonandi kemur það inn í þingið á næstu tveimur, þremur vikum þar sem þá verður farið yfir það mál og þar hafa komið sameiginlegar tillögur.

Það er rétt sem hv. þingmaður sagði, tímabundin skerðingarákvæði voru tekin upp í hruninu. Sum eru dagsett, þ.e. hvenær þau ganga til baka. Eitt af því sem tekið var upp var að lífeyrissjóðirnir skerða grunnlífeyri en það er ástæða til að halda því til haga sem hefur verið ákveðinn misskilningur, það er skerðing grunnlífeyris vegna annarra tekna, en þarna er um að ræða skerðingu þegar menn eru komnir yfir ákveðnar tekjur úr lífeyrissjóði, 200 þús. kr. Það er ekki skerðing á fyrstu krónunum gagnvart grunnlífeyri og það finnst mér skipta mjög miklu máli þegar verið er að ræða þetta mál.

Þetta mun að sjálfsögðu ganga inn í þessa nýju almannatryggingalöggjöf sem sameinar alla bótaflokka (Forseti hringir.) og verður með almenna 45% skerðingu ef vilji þingsins verður að taka þá breytingu eins og hópurinn hefur lagt til.