141. löggjafarþing — 27. fundur,  25. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

248. mál
[12:45]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það var nú heldur verra að hv. þm. Þráinn Bertelsson skuli ekki hafa verið viðstaddur til að veita andsvar af því að þær spurningar sem komu fram hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur voru alveg ágætar. Ég benti á það hér og fullyrti að málsmeðferðin öll hefði verið sérkennileg, að þeir þingmenn sem helst hafa talað fyrir hljóðupptökum á fundum ríkisstjórnarinnar hafi, þegar málið kom hér í gegnum þingið, að vissu leyti sett það sem eitt af þeim grundvallarmálum sem þeir vildu að næðu fram að ganga. Þrátt fyrir, eins og fram kom í máli hv. þm. Þráins Bertelssonar, að reyndir stjórnmálamenn í stjórnarmeirihlutanum segðu að þeir ætluðu sér ekki að styðja þetta, að þeir væru ekki hrifnir af þessu, að þeir vildu þetta ekki, var það samt sem áður samþykkt og málið fór í gegn. Það ætti að vera mjög til umhugsunar fyrir þingmenn — þegar slík staða myndast að þeir telja sig vera að koma í gegn málum með samþykki meirihlutavaldsins, með samþykki hinna reyndu ráðherra — að kálið er greinilega ekki sopið þó að í ausuna sé komið.

Ég geri mér grein fyrir því að ekkert skriflegt samkomulag var gert um þetta mál. En þeir sem fylgdust með umræðunum þegar málið var rætt hér í fyrsta sinn sáu allir hvað var að gerast, hverju það skipti að þetta yrði niðurstaðan þrátt fyrir að hún væri svo augljóslega gegn vilja og skoðunum „gamalreyndra stjórnmálarefa hér í þinginu“, eins og hv. þm. Þráinn Bertelsson kallaði það; þvert gegn þeirra vilja gekk það fram. Menn eiga, virðulegi forseti, að gæta sín á gamalreyndum refum. Það er eðli þeirra að leika leiki.

Í þessu máli hefur augljóslega verið leikinn leikur. Fyrst er sagt: Já, við skulum gera þetta, þrátt fyrir að augljóst væri að menn vildu það ekki. Síðan eru leiknir leikir sem gamlir refir, virðulegi forseti, kunna vel að leika, og allt í einu stöndum við hér með málið í algjörum spreng, keyrum það í gegn á þessum degi til að koma í veg fyrir að lögin, sem þó var búið að koma í gegnum þingið, taki gildi, til að ekki verði hljóðupptökur á þarnæsta ríkisstjórnarfundi eða hvað það nú er, þess vegna þurfum við að gera þetta á handahlaupum.

Það var þess vegna, virðulegi forseti, sem ég sagði hér úr ræðustól að það væri augljóst að þeir sem töldu sig hafa fengið sína skoðun fram og sinn vilja í samræmi og samráði við meiri hluta þingsins — gamla stjórnmálarefi — og hér stendur einn slíkur mér við hlið, virðulegi forseti, gamalreyndur, margreyndur — yrðu að horfast í augu við þá stöðu sem upp væri komin. Þeir yrðu að velta því fyrir sér næst þegar þessir klókindamenn allir, hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar, setjast niður á samningafundi til að ræða framgang mála.

Virðulegi forseti. Það skiptir líka máli hvers vegna við höfum mörg hver mælt á móti því að fara þessa leið. Í umræðunum á sínum tíma var varað við þessu og færð voru fyrir því rök hvers vegna ekki ætti að fara þá leið sem lögð var til. Það er umhugsunarvert ef það er rétt sem hér hefur komið fram, ef það mat er rétt sem lagt hefur verið á borðið, að menn hafi í hjarta sínu verið á móti þessu en látið þetta gerast. Hvað segir það um vinnubrögðin á þingi? Hvað segir það um okkur hér á Alþingi ef mál er samþykkt sem lög þvert gegn betri vitund margra manna og sannfæringu? Ef það er sannfæring hv. þingmanna að ekki eigi að hafa þetta svona, að ekki sé skynsamlegt að gera þetta og ekki rétt en samt er það samþykkt þá er auðvitað eitthvað að hjá okkur. Þá eru klókindin og klækjabrögðin farin að ráða fullmiklu. Miklu hreinlegra og eðlilegra hefði verið að segja nei í upphafi úr því menn meintu það þannig. Úr því að allir gamalreyndu stjórnmálarefirnir voru þeirrar skoðunar hefði átt að hlusta á það í upphafi og fara eftir þeirri sannfæringu. En það var ekki gert.

Ég tók eftir því að hv. þm. Þráinn Bertelsson sagði að það væri sárt að vera tekinn á pólitískum ippon, svo að ég vitni beint í orð hans, af pólitískum félögum sínum. Ég skil vel sárindi hans og ég skil líka vonbrigði hv. þm. Þórs Saaris. Þeir hv. þingmenn töldu réttilega, enda hafði Alþingi samþykkt það, að tillaga sem þeir höfðu barist fyrir yrði að lögum og þannig hafði málið gengið fram. Ég get mjög vel sett mig í spor þeirra og skilið að þeir séu ekki sáttir.

En ástæðan fyrir því að ég hef verið á móti umræddum hljóðupptökum er ekki sú að ég vilji verja leyndarhyggju. Langt því frá, virðulegi forseti. Ég óttast að verði sú leið farin verði til falskur veruleiki fyrir sagnfræðinga framtíðarinnar til að velta fyrir sér. Það verði veruleikinn af upptökum á ríkisstjórnarfundum þar sem menn, vegna þess að upptökur eru í gangi, haga máli sínu með ákveðnum hætti og af því að gamlir stjórnmálarefir sitja mjög gjarnan í ríkisstjórnum, hafa jafnvel átt langan feril í þessu öllu saman, tel ég að rök séu fyrir því — það finnst kannski ekki öllum það sérstaklega merkileg rök eða háleit — að menn muni gera út um málið sín í millum annars staðar, að í það minnsta sé hætta á því og þannig að dregin verði upp fölsk og röng mynd af því sem í raun og veru gerðist. Það er ekki gott.

Við eigum auðvitað, virðulegi forseti, öll að vera sammála um að aukið gagnsæi er af hinu góða. Ég held að menn hafi í sjálfu sér verið sammála um það, bæði fyrir og eftir hrun. Gagnsæi á þann veg að einhvers konar leyndarhyggja á engan rétt á sér og hefur aldrei átt rétt á sér. Það þýðir ekki að ekki sé hægt að halda ríkisstjórnarfundi fyrir luktum dyrum. Umræður þar eiga ekkert endilega erindi til almennings, enda höfum við þá fundi ekki opna. Ef allir ættu að hafa aðgang að öllu því sem sagt er á þeim fundum ætti bara að halda þá í heyranda hljóði, þá ætti bara að útvarpa frá þeim tvisvar í viku. Þannig höfum við það ekki. Það eru rök og ástæður fyrir því að þannig er það ekki. Það kann að vera að einhverjum hv. þingmanni þætti það ágætishugmynd, en ég er þeirrar skoðunar að svo sé ekki. Í það minnsta held ég að það yrði alveg skelfilega leiðinlegt útvarpsefni. Ég held reyndar að hæstv. ráðherrar hafi ekki áhyggjur af hnýsni inn í sitt líf, ég held frekar að þeir þykist vita að fundir hjá ríkisstjórninni séu ekkert sérstaklega skemmtilegir og hafi alla tíð ekki verið það. Margur maðurinn sem lætur sig dreyma um að komast þangað inn og sitja þar við borð á fundum gæti jafnvel hrökklast frá ef sá hinn sami fengi innsýn í það hvernig þetta starf er. Það er svo annað mál.

Mér fannst hv. þm. Þráinn Bertelsson of svartsýnn í málflutningi sínum. Mér fannst hann of svartsýnn með það að ekki væri vilji til að gera betur. Mér fannst hann of svartsýnn og draga of miklar ályktanir af þessum pólitíska ippon sem hann var beittur, af þeim klækjabrögðum sem hann var beittur, hinum pólitísku klækjum. Þó að ég skilji vonbrigði hans mega menn ekki verða svo svartsýnir að segja að menn hafi ekkert lært og enginn sé tilbúinn til að gera neitt af viti hvað varðar þessi mál.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja mál mitt úr hófi með þetta, en ég vildi útskýra hvers vegna ég hef verið á móti þessum upptökum. Ég tel með öðrum orðum að þær muni gefa falska mynd af því sem er að gerast, þær séu til þess fallnar að búa til falskt öryggi fyrir borgarana og þær leiði ekki fram það gagnsæi í stjórnsýslu sem ætlast var til. Ég er þeirrar skoðunar.

En fundargerðir, hvernig þær eru færðar, hvernig staðið er að birtingu dagskrár ríkisstjórnarfunda — má ég þá benda á að dagskrá fundanna hefur verið gerð opinber um langa hríð, menn vita hvaða mál eru á dagskrá og geta spurt ráðherrana spjörum úr þegar þeir koma af fundum. Þá skiptir eitt máli — það vil ég gera að lokaorðum, virðulegi forseti — en það er að tryggt sé og að það sé venja hér á Íslandi að ráðherrar, t.d. eftir ríkisstjórnarfundi, veiti fjölmiðlamönnum viðtöl þannig að fjölmiðlarnir geti veitt þeim aðhald eftir ríkisstjórnarfundina, að þeir geti svarað fyrir þau mál sem eru á dagskránni.

Ég hef heyrt það hjá fjölmiðlamönnum að misbrestur er á þessu, mismunandi eftir ráðherrum, hversu mjög þeir gefa tækifæri á því að veita viðtöl eftir ríkisstjórnarfundi. Þetta er eitt af því sem við getum breytt. Við getum haft áhrif á þetta. Það er sjálfsagt að við hugleiðum fleiri leiðir. En þessi er mín afstaða hvað varðar upptökumálið, virðulegi forseti.