141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

matsáætlun vegna framkvæmda á Vestfjarðavegi 60.

69. mál
[16:23]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ef ég fæ aðeins að blanda mér í þessa umræðu þá finnst mér staðan vera þannig núna að við þurfum að horfa til framtíðar. B-leiðin var ákjósanlegasta leiðin að mati stjórnvalda og íbúa á svæðinu. Um það er ekki nokkur vafi en í því máli féll hæstaréttardómur sem setti það mál allt á upphafsreit. Eins og hæstv. innanríkisráðherra rakti hér áðan eru fyrirsjáanlegar lagaflækjur, málaferli og óviss niðurstaða í því máli sem í raun og veru gerir það að verkum að það er eiginlega ekki vogandi að halda áfram að berja höfðinu við steininn með B-leiðina, þó að ég sé þeirrar skoðunar, og við öll, að sú leið hefði verið æskilegust.

Hæstv. ráðherra vísaði til þess að heimamenn hefðu verið afhuga svokallaðri leið D1, að fara um Ódrjúgsháls og undir Hjallaháls. Ástæða þeirrar andstöðu held ég að hafi verið sú að menn óttuðust tafir og að jarðgöngin undir Hjallaháls yrðu aldrei að veruleika. (Forseti hringir.) Þessi I-leið hins vegar sem ráðherrann vísar til held ég að sé lausnin (Forseti hringir.) og ég fagna því ef skriður er að komast á að skoða það af fullri alvöru.