141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

diplómanám á háskólastigi fyrir fólk með þroskahömlun.

266. mál
[17:24]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga máli. Eins og hún fór ágætlega yfir í máli sínu hefur þetta verið feikilega vel heppnað verkefni, verkefni sem alls ekki allir voru vissir um að ætti að ráðast í þegar farið var af stað með það. Árið 2007 var þetta rekið sem tilraunaverkefni til tveggja ára á vegum Kennaraháskóla Íslands og voru í upphafi teknir inn 20 nemendur. Síðar tók menntavísindasvið HÍ við verkefninu þegar Kennaraháskólinn og Háskóli Íslands sameinuðust. Námið hefur sem sagt verið rekið af menntavísindasviði en að auki hefur Fjölmennt lagt til einn starfsmann með það hlutverk að styðja nemendur, halda utan um skipulag og aðstoða kennara HÍ eftir þörfum. Nemendur á menntavísindasviði sinna líka námsstuðningi og fá fyrir það námseiningar sem tengjast oftar en ekki námi þeirra á þroskaþjálfabraut.

Diplómanámið er skipulagt sem framhald af námi í framhaldsskóla. Nemendur fá þjálfun í að starfa á leikskólum, frístundaheimilum, skólabókasöfnum, með fötluðu fólki eða í hagsmunabaráttu fatlaðs fólks. Hugsunin byggir á sömu hugmyndafræði og við höfum innleitt á öðrum skólastigum, þ.e. þetta er nám án aðgreiningar. Nemendur sækja í mörgum tilfellum sömu námskeið og aðrir stúdentar á menntavísindasviði og er námið síðan aðlagað að þörfum hvers nemanda með sérstakri aðstoð.

Eins og ég sagði áðan hóf fyrsti hópurinn nám 2007, næsti 2009 og sá þriðji hóf nám á haustmissiri 2011. 17 nemendur munu brautskrást vorið 2013. Það er áhugavert að greina frá því að af útskrifuðum nemendum hafa 63% fengið vinnu í framhaldi af eða í tengslum við námið og 30% hafa fengið aðra vinnu þannig að tæplega 10% hafa ekki fengið vinnu beinlínis eftir þetta nám.

Í stuttu máli sagt þá höfum við rætt þetta mál við Háskóla Íslands á menntavísindasviði. Þar er mikill áhugi á að halda verkefninu áfram. Ég legg á það mikla áherslu að diplómanám á háskólastigi fyrir fólk með þroskahömlun verði áfram í boði. Við vinnum nú að því með HÍ og Fjölmennt, sem hefur komið inn með sérstakan stuðning, að tryggja áframhaldið. Ég tel að það liggi nokkuð ljóst fyrir að við getum tryggt nemendaígildin fyrir námið, sem er það sem HÍ þarf fyrst og fremst að vita. Við erum hins vegar ekki algjörlega búin að loka málinu, en ég stefni ótrauð að því að þetta verði tryggt þannig að nýr hópur, 10–15 nemendur eins og verið hefur, geti hafið nám á næsta haustmissiri sem er 2013.