141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

tjón af fjölgun refa.

140. mál
[17:47]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er orðið nokkuð árvisst að við tökumst hér á um refamál eða ræðum þau í vinsemd.

Fyrst um spurningu hv. þingmanns um stöðu mála. Hann orðar hana sem svo hvort ríkisstjórnin hafi í hyggju að koma til móts við bændur vegna þess tjóns sem hlýst af fjölgun refa. Ref byrjaði í raun og veru að fjölga á ný um 1980 eftir langt fækkunartímabil og lengst af var sú fjölgun fremur hæg. Fjölgun refa hefur verið óvenjuhröð undanfarin 15 ár og vafalítið eru margar ástæður fyrir því, svo sem hlýnandi veðurfar og stækkun ákveðinna fuglastofna. Tjón bænda vegna fjölgunar refa hefur hins vegar ekki verið metið og það er ekki vitað hvort og þá að hve miklu leyti tjón hefur aukist samfara breytingum í refastofninum, þ.e. ekki eru til töluleg gögn um það. En við þurfum betri vitneskju um nákvæmlega þetta samspil, um tjón, veiðar og grenjavinnslu áður en við tökum afstöðu til hvort ástæða sé til þess að bregðast beinlínis við.

Spurt var hvort það hefði verið skynsamleg ákvörðun að hætta fjárstuðningi við refaveiðar. Þegar ákvörðun var tekin, eins og hv. þingmanni er kunnugt um og hann var þá stjórnarliði, eftir hrun bankakerfisins um að skera niður í útgjöldum ríkisins á öllum sviðum þurfti að taka ýmsar erfiðar ákvarðanir, hv. þingmanni til upprifjunar, og reynt var að skera minna niður í lögbundnum framlögum en þeim valkvæðu. Sú ráðstöfun að skera niður framlög til fjárstuðnings við refaveiðar var í því ljósi ábyrg miðað við aðstæður í þjóðfélaginu. Hún er valkvæð, þ.e. ríkinu ber ekki skylda til að taka þátt í þessum kostnaði heldur er það heimilt. Það er svo rétt að endurmeta stöðuna miðað við núverandi aðstæður og ástand í fjármálum ríkis og sveitarfélaga sem er sem betur fer, og miklu hraðar en nokkurn óraði fyrir, að sjá til lands í erfiðu endurreisnarstarfi íslensks samfélags undir forustu núverandi ríkisstjórnar og með stuðningi allrar alþýðu í landinu. Líka í kjölfar skýrslu nefndar sem er núna að endurskoða lög um lagaumhverfi villtra spendýra og fugla á Íslandi og taka sérstaklega á þeim þætti sem varðar refaveiðar. Sú skýrsla er væntanleg á næstu vikum. Nefndin er stundum kölluð villidýranefndin vegna þess að manna á milli eru þessi lög nefnd villidýralögin og fjalla sem sé um villt spendýr og fugla og jafnframt vernd, veiðar og nýtingu á þeim.

Hv. þingmaður spyr hver stefna ríkisstjórnarinnar sé þegar kemur að refaveiðum. Sú stefna endurspeglast fyrst og fremst í umræddum lögum og er í samræmi við anda og ákvæði þessara laga nr. 64/1994. Í lögunum er beinlínis sagt að draga beri úr hættu á tjóni af völdum refa með stuðningi og endurgreiðslum til sveitarfélaga vegna kostnaðar þeirra við refaveiðar. Þannig er þetta orðað í lögunum.

Að mínu mati er nauðsynlegt að fara yfir fyrirkomulag og skipulag refaveiða og gera viðeigandi breytingar á lögunum og það er eitt af því sem undir liggur í þessari endurskoðun og ég bíð tillagna frá nefndinni. Í framhaldinu verða tillögur nefndarinnar skoðaðar. Nefndin hefur haft mjög víðtækt samráð við hagsmunaaðila þannig að ég vænti þess að það ríki tiltölulega breið sátt um þær niðurstöður og hún mun leggja fram tillögur til breytinga á lögunum til þess að bæta meðal annars framkvæmd og skipulag refaveiða.

Málið var rætt fyrir fáeinum vikum á sérstökum samráðsvettvangi ríkis og sveitarfélaga sem hefur gengið undir nafninu Jónsmessunefndin. Hún hefur sérstaklega fjallað um fjármálaleg samskipti og hefur verið ákveðið að skipa nefnd á næstunni með fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga og þeirra ráðuneyta sem um ræðir til að fara yfir og endurskoða bæði núverandi fyrirkomulag veiðanna en ekki síður hvernig komið er til móts við þann kostnað sem til fellur af þeim sökum. Þá er brýnt að halda því til haga í þeirri umræðu að samkvæmt lögum bera sveitarfélögin ábyrgðina á því að stemma stigu við fjölguninni og halda útbreiðslunni í skefjum valdi stofninn hættu en það er eitt af því sem viðkomandi nefnd tekur væntanlega afstöðu til.