141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

tjón af fjölgun refa.

140. mál
[17:55]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Frú forseti. Ekki fundust mér svör hæstv. ráðherra bera þess merki að það væri hægt að vera bjartsýnn hvað þennan málaflokk snertir.

Í fyrsta lagi vil ég segja, og ég fór inn á það hér í mínum inngangsorðum, að þegar fjárveitingum til refaveiða var hætt á sínum tíma var bent á að þau fjárframlög væru gegn því að mótframlag kæmi frá sveitarfélögunum. Það var jafnframt bent á að heildarvirðisaukaskatturinn sem ríkissjóður væri að innheimta af framlagi sveitarfélaganna og ríkissjóðs væri hærri en framlag ríkissjóðs. Þannig að ummæli hæstv. ráðherra um ábyrga fjármálastjórn og annað því um líkt, og að það hafi leitt til þessarar ákvörðunartöku, standast enga skoðun nú frekar en þau gerðu á sínum tíma.

Hæstv. ráðherra kom inn á að það hefði verið óvenjuhröð fjölgun refa undanfarin ár og undanfarinn áratug. Það lá fyrir fyrir tveimur árum þegar hæstv. ráðherra lagði það til að hætta fjárveitingum til refaveiða að fjölgunin hafði verið gríðarleg. Tjónið liggur fyrir. Það liggur fyrir alls staðar, allt í kringum landið, ef menn fara og hitta fólk og sjá hvað er að gerast. Fé sem vantar af fjalli fer fjölgandi. Fuglalíf á ákveðnum svæðum og mófuglalíf er að þurrkast út. Það þarf engar stjarnfræðilegar upphæðir til rannsókna í þeim efnum, þetta liggur ljóst fyrir.

Nú segir hæstv. ráðherra að til standi að skipa sérstaka nefnd sem eigi að fara yfir þessi mál með sveitarfélögunum og að það sé búið. Fjárlaganefnd lagði það til á sínum tíma á fyrsta starfsári hæstv. ráðherra í ríkisstjórn. Þegar fjárlaganefnd setti inn fjárveitingu til refaveiða lagði nefndin jafnframt til við afgreiðslu fjárlaganna að þessi mál yrðu skoðuð og að árið á eftir yrði komið með heildarstefnu í samstarfi við sveitarfélög og fleiri aðila um hvernig skyldi vinna að þessum málaflokki. Þess í stað kom ráðherra, skar niður fjárveitinguna og ætlar núna að skipa þessa nefnd. (Forseti hringir.)

Ég vil bara ítreka þá spurningu sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson kom með hér áðan: Er ekki full ástæða til þess, frú forseti og hæstv. ráðherra, að koma til móts við náttúruna í landinu (Forseti hringir.) og veita fjármuni í þennan málaflokk við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2013?