141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

afleiðingar óveðursins á Norður- og Norðausturlandi í september.

[14:07]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Við höfum svo sannarlega verið minnt á það þessa dagana að við búum á Íslandi, landi þar sem allra veðra er von. Við höfum um margt búið okkur undir að njóta þess í blíðu en takast á við það í stríðu. Ég bað um þá umræðu sem hér er að hefjast um miðjan september í kjölfar óveðursins sem gekk yfir Norður- og Norðausturland dagana 9.–11. september. Eins og við munum skall þar á mikið óveður með gríðarlegri úrkomu, fannfergi til fjalla og niður í byggð og með miklum skaða, fjárskaða, tjóni á rafmagni, tjóni á fjarskiptabúnaði, tjóni á atvinnutækjum o.fl.

Fyrstu viðbrögð við óveðrinu snerust að sjálfsögðu um að bjarga búsmala því að það sem var óvenjulegt við þetta óveður, þetta snjóaveður, var að fé var á stórum stæðum enn inni á heiðum og hafði ekki verið smalað til byggða. Það var ekki svo auðvelt að bregðast við og bjarga fé af stórum heiðasvæðum. Það verður að segjast eins og er að allir þeir sem lögðu þar fram krafta sína — heimilisfólk, bændur og búalið, heimilisfólk á bæjum og íbúar á þessum svæðum, björgunarsveitir, starfsmenn Rariks, starfsmenn þeirra allra sem þarna komu að — unnu einstakt þrekvirki við erfiðar aðstæður.

Smám saman eru að birtast tölur um tjón. Í síðasta Bændablaði var gerð grein fyrir því að um 2.500 fjár munu hafa farist á Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslusvæðinu. Fréttir berast af verulegum fjársköðum í Skagafirði, Húnavatnssýslum og allt suður á heiðarlönd Borgfirðinga. Heyrst hefur og talað um það í fréttum að 9–10 þús. fjár hafi farið í þessu óveðri. Ég ætla ekki að gera að umtalsefni bætur vegna fjárskaða en þó hlýtur maður að horfa til þess að það verði bætt eins og nokkur kostur er og hafa komið fram yfirlýsingar af hálfu stjórnvalda um það. Ég get líka búist við því að þetta tjón komi misjafnlega niður. Sumir bændur hafa misst meira og aðrir minna og þannig getur leikið vafi á fyrir marga hvort þeir ráði við það og haldi áfram búskap. Þetta þarf allt saman að athuga.

Önnur ástæða fyrir því að ég vek athygli á þessu í umræðu og vil taka hana upp er þó að beina orðum mínum til hæstv. innanríkisráðherra: Þegar svona atvik gerast, svona miklar hamfarir eins og áttu sér stað á stórum landsvæðum, þar sem rafmagn fer, þar sem skipuleggja þarf björgunarstarf, þar sem samhæfa þarf aðgerðir og forgangsraða þeim, skiptir máli hvernig á því og um það er haldið. Það skiptir líka máli eftir á að draga lærdóm af því sem þarna skeði, hvernig brugðist var við og hvað þurfi að gera til að treysta veika hlekki.

Ég spyr hæstv. innanríkisráðherra og ráðherra almannavarna hvort ekki verði unnin heildarskýrsla um atburðarásina sem þarna átti sér stað, viðbúnað, viðvörun af þeim aðilum sem hlut eiga að máli. Ég vil líka spyrja hvernig hafi verið með öryggistæki eins og fjarskipti, útvarp, útvarpssendingar sem eru mikilvægar í öllum samskiptum og fjarskiptatækni. Hvernig fór þessi búnaður, þetta öryggiskerfi, og hvernig virkaði það við þær aðstæður sem þarna voru?

Á sumum svæðum voru almannavarnir kallaðar saman, á öðrum ekki og það hefur að vísu verið nefnt með hvaða hætti almannavarnir koma formlega inn í mál af þessum toga. (Forseti hringir.) Ég legg áherslu á að við tökum þetta allt saman á einn stað og getum þá metið hvar eru veikir hlekkir, hvar við þurfum að bæta úr og læra af þessu: Þetta er ekki fyrsta og ekki síðasta óveðrið sem (Forseti hringir.) ríður yfir Ísland.