141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

afleiðingar óveðursins á Norður- og Norðausturlandi í september.

[14:34]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Það hefur verið mjög gott að heyra að allir hv. þingmenn eru sammála um hvernig á að taka á þessu máli, þ.e. afleiðingum óveðursins sem gekk yfir Norður- og Norðausturland í byrjun september.

Hæstv. ráðherra minntist einmitt á að ákveðnir þættir viðvörunarkerfis, björgunarkerfis sem felst í fjarskiptum og því að útvarpssendingar séu virkar hafa ekki verið í lagi á tilteknum svæðum við þessar erfiðu aðstæður. Ég tel afar mikilvægt að farið sé gaumgæfilega ofan í þau mál.

Það á líka að forgangsraða í sambandi við að tryggja raforkuflutning. Ég minni á línuna til Kópaskers sem er loftlína og flytur ekki rafmagn með eðlilegum hætti. Ég tek undir þær áherslur að rafmagn eigi að leggja sem mest í jörð til að tryggja afhendingaröryggi.

Ég ítreka að tjónið er gríðarlegt. Talið er að um 10 þús. fjár hafi farist sem var dreift vítt og breitt um hálendi Norðaustur- og Norðurlands. Erfitt var að meta hvernig standa skyldi að björgunaraðgerðum en menn gerðu sitt besta og ég veit að fólk fór miklu fyrr af stað á þessum svæðum þó að ekki væri lýst yfir almannavarnaástandi.

Frú forseti. Ég ítreka að gefa þarf skýr svör fyrir það fólk sem hefur orðið fyrir beinu tjóni og hægt er að bæta. Ég ítreka líka að sýna þarf eftirfylgni með því að fylgjast með afleiðingum og áhrifum þessa óveðurs á atvinnulíf, búsetu og hag fólks á einstaka bæjum og í byggðum. Ég ítreka jafnframt, eins og hefur komið fram í ræðu hæstv. ráðherra, að taka þarf saman skýrslu þar sem úttekt er á öllum þáttum þessa máls þannig að við getum haft gagn af og lært hvernig við (Forseti hringir.) bregðumst við því sem þarna átti sér stað og einnig (Forseti hringir.) þegar slíkt gerist á öðrum landsvæðum.