141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[16:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir skelegga ræðu. Stundum eru ræður of skeleggar og ekki í þeim sáttatónn sem nauðsynlegt er til að ná fram þeirri niðurstöðu sem hv. þingmaður vildi fá. Hann segir til dæmis að einkavæðingin hin síðari þoli ekki dagsljósið. Ég er ekki viss um að það sé rétt. Ég held nefnilega að einkavæðingin hin síðari hafi verið ill nauðsyn og að á henni séu skýringar. Íslendingar voru búnir að stofna þrjá nýja ríkisbanka og ef þeir hefðu átt að starfa sem ríkisbankar hefðu komið fram áratugalangar deilur við kröfuhafa um hvað iðgjaldavarasjóðirnir ættu að vera þykkir.

Ég stakk upp á því bæði við fyrri ríkisstjórn og líka við fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra að setja nýju bankana undir gömlu bankana. Þá mundu þær deilur leysast vegna þess að ef iðgjaldavarasjóðirnir yrðu hafðir mjög þykkir, eins og þeir reyndar urðu, fengju þeir þá seinna sem hagnað og bankarnir yrðu sterkari. Þetta var því rökrétt. Varðandi Landsbankann er alveg á hreinu af hverju ekki var farið sömu leið með hann. Kröfuhafar voru breska og hollenska ríkið með Icesave-kröfurnar og fjármálaráðuneytið í Bretlandi langaði ekkert að eiga banka á Íslandi, það er alveg á tæru. Sú lausn kom því ekki til greina þar heldur var gefið út skuldabréf sem er með leiðréttingarákvæði ef iðgjaldavarasjóðirnir reyndust vera stærri þegar á reyndi.

Nú langar mig að spyrja hv. þingmann: Kemur til greina að breyta tillögu hans í að annað þrepið af tveimur yrði tekið í rannsókn á bankakerfinu öllu saman, bæði fyrri og seinni einkavæðingu?