141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[16:26]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta mál sé komið svo langt sem raun ber vitni við síðari umræðu eftir efnislega meðferð í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Það er fagnaðarefni, en vissulega hefur þetta verið langt ferli, allt of langt að mínu mati. Þetta er tillaga sem var upphaflega lögð fram á 139. löggjafarþingi, haustið 2010. Hefði verið mun farsælla og eðlilegra ef málið hefði fengið efnislega meðferð á því þingi þannig að við hefðum núna, og jafnvel fyrir einu ári síðan, haft í höndunum niðurstöðu þessarar rannsóknar. En auðvitað skiptir mestu máli að rannsóknin sé gerð, að hún sé faglega unnin og að við fáum niðurstöðu sem við getum dregið lærdóm af.

Ég fór vel í gegnum efnisinnihald tillögunnar við 1. umr. og er ekki þörf á að endurtaka það, en ég vil draga sérstaka athygli að hlut Alþingis í málinu því að það er nokkuð sem við þurfum að hafa í huga. Við þurfum að draga skýran lærdóm af aðkomu Alþingis að málinu á sínum tíma. Á vormánuðum 2001 kom fram frumvarp frá ríkisstjórninni um að Alþingi veitti heimild til að selja ráðandi hluti í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. Hlutirnir voru í kringum 70% í hvorum banka fyrir sig, rúm 68% í Landsbanka Íslands og rúm 72% í Búnaðarbanka Íslands.

Frumvarpið var ekki efnismikið og efnislega fól það einungis í sér eina grein sem var sú að heimilt væri að selja eignarhluti ríkisins í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. Það rúmast í einni setningu. Frumvarpið var lagt fram á Alþingi í marsmánuði 2001. Það var tekið til meðferðar í fagnefnd þingsins og þingið samþykkti það óbreytt í maímánuði 2001.

Ég vil draga athygli að þessu því að þarna lét Alþingi hjá líða að setja inn nokkra mælikvarða um það hvaða sjónarmið ættu að ráða för við sölu á þeim mikilvægu ríkisfyrirtækjum sem þá voru hryggjarstykkið í íslenskum fjármálamarkaði. Það er ekki af því að ekki hafi komið fram slík sjónarmið í umræðunni. Ég vitna til þess að 1. minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar, sem skipaður var þingmönnum Samfylkingarinnar Össuri Skarphéðinssyni og Margréti Frímannsdóttur, lagði fram ýmsar breytingartillögur sem lutu að því að ríkisstjórnin fengi einungis heimild til að selja hlutafé í öðrum bankanum, í Búnaðarbankanum, að dreifð eignaraðild yrði tryggð með tilteknum hætti, að starfsmenn fengju fulltrúa í stjórn og sala á hlutafé í bankanum hæfist ekki fyrr en fyrir lægi staðfesting Seðlabanka Íslands og Þjóðhagsstofnunar á því að aðstæður á fjármálamarkaði væru með þeim hætti að verjanlegt væri að ráðast í söluna.

Því miður voru þessar breytingartillögur felldar í þinginu og frumvarpið fór óbreytt í gegn. Það er ansi sorglegt að lesa nefndarálit meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um málið. Það er mjög stutt og þar eru ekki reifuð nein sjónarmið — þar eru engin sjónarmið um það hvað skuli vera leiðarljós við einkavæðingu bankanna. Einungis er vitnað til þess að framkvæmdanefnd um einkavæðingu vinni að undirbúningi tillagna um fyrirkomulag sölunnar og muni taka afstöðu til ýmissa atriða. En eins og við þekkjum var ágætri vinnu þeirrar framkvæmdanefndar ýtt út af borðinu á lokametrunum, eins og vel hefur verið rakið í fréttaumfjöllun og í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Af því ég nefni þá skýrslu er rétt að hafa í huga að rannsóknarnefnd Alþingis tiltók það sérstaklega að hún hefði eingöngu tekið til skoðunar síðustu mánuðina í þessu ferli, síðari hluta árs 2002, og að úttekt hennar væri á engan hátt heildarúttekt á öllu ferlinu sem stóð yfir í fjögur ár.

Ég nefndi það áðan að liðin væru ein tvö ár síðan hliðstæð tillaga var lögð fram, þá af þingmönnum Samfylkingarinnar haustið 2010. Sú tillaga var reyndar með þrengra sjónarhorn, hún átti eingöngu að taka til einkavæðingar Landsbanka Íslands og Búnaðarbankans en ekki Fjárfestingarbanka atvinnulífsins sem var hluti af þessu ferli. Var bætt úr því í þeirri tillögu sem við höfum hér til meðferðar.

Ég legg líka áherslu á að þingið hafði full tök á því að afgreiða það mál á síðasta þingi og var ríkur vilji meiri hlutans til að gera það, en andstaða við það, ekki í stjórnarandstöðunni allri heldur í Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki, kom í veg fyrir að það tækist.

Ég fagna þeim sjónarmiðum sem fram koma í máli hv. þm. Péturs H. Blöndals um að tilefni sé til að reyna að ná sátt um ferlið. Hér á borðinu er breytingartillaga sem lýtur að því að fara í gegnum rannsókn á því ferli sem tengdist því þegar hinir föllnu einkabankar hrundu í fangið á Fjármálaeftirlitinu og þá þurfti að koma þeim í slitameðferð. Ég er fylgismaður þess að það ferli allt verði rannsakað en ég get ekki fallist á að það hafi verið einkavæðingarferli með sama hætti og það ferli þegar ríkisbankarnir voru seldir einkaaðilum. Það er eðlismunur á þessum tveimur atriðum sem gerir það að verkum að ekki er rökrétt að tengja þá saman. Ég er hins vegar á þeirri skoðun að síðara ferlið verðskuldi rannsókn og mundi fyrir minn hatt styðja það ef fram kæmi sjálfstæð tillaga um að fara í rannsókn á því ferli því að auðvitað var það afdrifaríkt ferli. Það er mikilvægt að allar gjörðir stjórnvalda í slíkum afdrifaríkum málum séu rannsakaðar og þoli dagsljósið.

Ég vil að lokum þakka stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fyrir vinnu hennar í þessu máli og fagna því að það hilli undir að við getum tekið málið til lokaafgreiðslu og að rannsóknin fari af stað. Það hefði verið gaman að fá niðurstöðu rannsóknarinnar fyrr í hendurnar. Nú hefur framsögumaður málsins útlistað það vel að ekki eru líkur á því að rannsóknin geti hafist fyrr en um áramót og er augljóst að rannsókn af þessu tagi gæti aldrei klárast á þremur mánuðum. Við vitum að rannsóknin á sparisjóðunum hefur dregist í vel á annað ár og er því sú breytingartillaga eðlileg sem gerð var í meðförum meiri hluta nefndarinnar að stefna að niðurstöðum næsta haust. Við getum haft skoðun á því hvort það sé nægilega langur tími. Hugsanlega þarf að lengja hann en aðalmálið er að rannsóknin verði fagleg og vel unnin og að við drögum lærdóm í þinginu þegar farið verður í það í fyllingu tímans að selja ráðandi hlut í Landsbankanum. Er rétt að ítreka að það frumvarp sem komið er í þingið um sölu á tilteknum eignarhlutum í þeim bönkum sem nú eru starfandi lýtur eingöngu að sölu á tiltölulega litlum eignarhlutum. Því er enn þá góður tími til að læra af reynslunni þegar og ef ákveðið verður að selja ráðandi hlut í Landsbankanum.